Fimmtudagur, 6. apríl 2023
Þú verð ekki tungu með reglugerð
Fólk hérlendis sem elskar Íslenska tungu hefur vel tekið eftir að rofin er rjúkandi tunga*. Merking málsins er að mestu horfin. Vissulega veistu orðabókarskýringu þeirra orða sem eru í huga þér. Frumspekilegt innihald þessarar merkingar - eða sál hennar - skiptir þig litlu og þú hefur ekki vald á að snara erlendu máli yfir á innlent nema með beinni orðasnörun, því þú veldur ekki merkingarlegri yfirfærslu.
Elítan malar og malar merkingarlaust hjal, almenningur tuðar án nokkurra meininga, antivistar mögla um sannleika sem enginn skilur né vill heyra, og fjölæringjar yrkja fyrir vindinn. Nóg er af orðunum, en merkingin rofin, og innihaldið rýkur um tinda hrokans. Það eina sem treysta má er rangsnúningur og markleysa. Rofin rjúkandi tunga.
Að refsa fyrir rangt málfar eða reisa stofnun til verndar tungu, er hið sama og að viðurkenna hið augljósa sem enginn vill hafa orð á; menningin er dáin og tunga hennar rokin, að orðin ein eru eftir eins og tómar byggingar.
Þetta er að gerast um allan heim og hefur frumspekilegar forsendur (A priori), sem of langt mál er að rekja hér. Það er þó sérstaklega áberandi hérlendis hvernig fólk á opinberum vettvangi ríkisins og í því sem nær öllum fjölmiðlum, hefur misst tök á Íslensku málfari (þó orðabókar stafsetning sé yfirleitt góð).
Ég hef aldrei gefið mig út fyrir að kunna Íslensku, þvert á móti. Ég kann því sem næst enga málfræði, veit ekkert um reglurnar, get ekki sagt þér muninn á nafnorðum, atviksorðum og sögnum, og brengla jafn oft og hver annar orðaröðun í setningum og málsgreinum.
Ég hef þó góða máltilfinningu og hef skólast til í gegnum árin, því ég rita mikið og hef verið skammaður enn meira; umfram allt las ég Laxness og Þórberg og Skugga þegar ég var únglíngur; og hef stálminni á við vandað gatasigti.
Mikki Refur sagði við Lilla litla klifurmús; ég skil allt sem ég kæri mig um að skilja. Það er svipað með okkur þverplankana sem fjúkum mót vindi, svo bæta mætti við: Ef ég veit ekki eitthvað, þá er það baunatalning sem skiptir engu máli.
Ég hef lengi barist fyrir því að elja Elítunnar til höfuðs Íslensku máli sé gelduð, en þá væri nóg að leggja niður dímoninn Árnastofnun. Þegar Ríkið reisir stofnun til verndar einhverju, særir hún upp dímon, sem beitir henni gegn áforminu.
Hvað með handritin, hugsar þú þá, og veist ekki að það er innprentuð hugsun. Þegar þú skilur knöttinn, sparkarðu honum í haf út. Við áttum aldrei að flytja handritin heim, þau eru betur geymd í Kaupmannahöfn. Við áttum þess í stað að taka þátt í samfellurannsóknum með Skandinövum og tryggja að miðinn - varðveittist hjá Íslenskum fræðimönnum gegnum aldirnar - væri á öllum titilsíðum - eða álíka.
Laga þetta þegar ég verð Forseti.
Aftur að rjúkandi tungu, saman ber fréttina "Gætum haft 38 þúsund manns til hervarna."
Í fréttinni er eftirfarandi texti:
"
Hann segir að ekki þurfi að grípa til svo drastískra aðgerða hér á landi en að með broti af þessum fjölda mætti koma skikki á varnarmál þjóðarinnar. Í dag hafi Íslendingar ekki burði til þess að verja mikilvæga hernaðarlega innviði sína, jafnvel ekki til þess að tryggja möguleika bandalagsþjóða NATO til þess að koma okkur til bjargar, ef á okkur er ráðist.
"
Í fyrsta lagi er orðið drastískt ekki til í Íslenskri orðabók. En látum baunatalningu öðrum eftir og endurritum hrognamálið á Íslensku:
"Hér mætti vel þjálfa allt að 38 þúsundir til landvarna"
"
Segir hann að ekki þurfi svo dramatískar aðgerðir hérlendis en með broti þessa fjölda mætti með auðveldum hætti koma reiðu á varnarmál Þjóðarinnar. Nú hafi Íslendingar enga burði til verndar hernaðarlega mikilvægum innviðum [sínum], og væri á okkur ráðist hefðum við litla getu til að auðvelda bandalagsþjóðum okkar í NATÓ til að koma okkur til varnar.
"
Allflestir eru í dag ónæmir fyrir mun á svona hlutum, ég er það einnig. Satt að segja er ég oft í vafa með hvernig eigi að raða orðum inn í setningar, búta eða lengja, eða snúa þeim í kringum það sem mér er í hug hverju sinni.
Hef gaman af þessu sprikli og gamna mér oft við að snúa upp í olnbogabót Priskíanusar, frekar en elta ólar við hvernig ætlast er til að maður moði efninu frá sér. Ég er engin fyrirmynd, og ítreka að ég kann ekki Íslensku, en stundum þegar ég les texta með Íslenskum orðum, sé ég hrognamál og leirburð, kryddað mismunandi bergmáli, og spyr sjálfan mig í hálfum hljóðum; er ég sé eini sem tala og rita á Íslensku í þessum skrítna/sturlaða samtíma okkar?
Allavega.
Ísland er ekki lengur til.
Kannski næ ég að flýja land áður en vinstri-öfgar Ósjálfstæðaflokksins og Voða-Góðra í samstarfi við Fjárfestingaflokkinn opna fyrsta Gúlagið fyrir hatursfullar hægri-öfgar.
Kannski.
Hver veit.
Glöggir fara brátt að taka eftir hvernig Antivistar og Almenningur og Elítan eru þrír vel afmarkaðir hópar, enginn þeirra hlustar hver á annan, enginn þeirra heyrir hvað sagt er þegar þeir þykjast hlusta, allir rembast þeir eins og geld rjúpa við staur (sem veit ekki uppruna þess hugtaks) og utan við vel snyrta sannleiksgarða þeirra erum við fáeinir fjölæringar að gamna okkur við að skilja hver annan án þess nokkru sinni að vita hvernig hinn orðaði það. Ég er sá eini á heimsvísu sem hef haft orð á þessu og skilgreint, og sett í arkíf.
* Volatile vernacular has blown away --GH.
Vilja beita sektum gegn enskuvæðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.