Miðvikudagur, 7. maí 2025
Sviðsprakkarar, Glyssprangarar og Stokkaskottur
Að sjá sér til gagns (Clarification) má rita sem gagnsæi, og að sjá í gegnum (Transparency) má rita sem gegnsæi. Sumar fúskorðabækur útskýra hvað gegnsæi er, en lista klámyrðið gagnsæi án skýringar með tilvísun til gegnsæis.
Okkar samtímamenning, að mínu mati fúskmenning, tekur gagnsæi fram yfir gegnsæi, enda málvitund okkar skini skroppin. Umpólun (Polarization) er nú að skauta á glimmer lítilsiglds minnimáttar geldings, með háum hvelliskellum, blint á eigin þurrð.
Á tímabilinu sem Jón J. Aðils ritaði um í bók sinni Gullöld Íslendinga og Lúðvík Ingvarsson Sýslumaður í þriggja hefta bók sinni Goðorð og Goðorðsmenn, var helst ekki lagt í fúsk við mótun fegurra hugsana. Á þeim tíma stigu menn á stokk, í heyranda hljóði, oft fyrir Þingheim - hvort heldur á Héraðsþingum eða Allsherjarþingi - ef strengja vildu heit og þá leggja við eitthvað, sér ýmist til ágætis og vansa eftir hvernig til tækist.
Fúskmenningin kann þetta ekki og rangheftir það að stíga á stokk, við áramótaklausur af erlendum toga, merkingar- og ómlaust - void of resonance and meaning.
Í minni unglíngstíð var algengt að fólk til sveita kæmi saman á Þorrablótum, Töðugjöldum eða við önnur tækifæri sem hentugt var að gefa sér færi til. Þá tróðu menn upp, grínistar og eftirhermur, stundum einsöngvarar, og skemmtu fólki. Síðan var dansað, oft við undirleik tónlistarfólks úr héraði. Á vandaðri heimilum sveitar var þá skilið eftir á ballinu, það sem gerðist á ballinu, eða þannig, og þannig entust hjúskaparheitin betur og tálmun þekktist varla.
Einnig var oft gaman á Jónsmessunætur samkomum en þá var helst hitst úti við og brugðið á leiki. Oft kom fyrir að sprækir træðu upp og gerðu gys að nábúum sínum, og ef hreppi var fjarri, var hann tekinn fyrir með eftirhermum og glensi.
Fylgst var með á slíkum kvöldum að ungmenni beggja kynja áttu til að glepjast af hvolpaviti, og því nokkuð í mun að drægjust rétt á milli æru og ætta. Þó reyndi hver bóndi fyrir sig, eftir augngotum betri helmings síns, að hafa hemil á afskiptum sínum, því töfrar sumarnátta kunna leynda dóma að seyða.
Að troða upp, eða bregða sér á svið, uppivaðsla og áheyrnarglens, var því vel þekkt, ekki aðeins í mínu ungdæmi, heldur um aldir alla leið aftur til elstu feðra okkar og ána. Uppistand hins vegar, það er allt annað í Íslenskri málvitund og menningu, og þá er átt við þegar margir koma saman og án forms láta skeika að sköpuðu hvernig grín, glens, leikar og samhlaup gerjast í skemmtilegan samkomugraut.
Fúskmenning, þar sem útvarpsmenn hlæja að eigin fyndni, og hafa líkast til aldrei heyrt málshátt um sjálfa sig, nota Uppistand sem klámyrði eða beina túlkun* enska hugtaksins Sviðsgrín eða Stokkaskaup (Stand up comedy).
Íslenskt mál er dáið, og höfundar okkar í bæði bundnu og óbundnu, sem ýrðu það í mislitan og djúpan menningarseið, eru ekki "inn" og því ólesnir í kjöllurum týndra bókasafna, fjarlægir glysi og glingri sjálfsfyndinna skellibjallna þeirra er ekki vita hvaðan þær koma, hafa engan grun um hverjar eru, og blindar á hvert teymast.
Eigum við orð, já, en málið er dáið.
Því fyrr sem við afmáum Dímoninn sem huliðshjúpar sig í líki Árnastofnunar, því fyrr fáum við sjálf okkur aftur, en ef ekki, hver er að syrgja?
Eins og allir vita hefur minn engan húmor og kann ekki Íslensku.
Hugur míns var mótaður af samveru við kýr í fjósi, leiki við stíflugerð í landbrotum, að reka kindur úr túnfótum í samstarfi hundsins Loppu, að lesa mold og fánu hæða og ása búinn gúmmískóm og lopasokkum og þegar hann var búinn með skemmtilegu bækurnar í stofuhillu ömmu sinnar, lét hann vaða á hinar.
Einhverra hluta vegna átti hann létt með að ýmislegt sem ekki sést þó hann hefði engan áhuga á slíkum handanmóðu slitrum. Svo rammt var, þegar hann óx úr grasi - eftir að hafa dýft sér útí hvað það væri - að hann þurfti að læra ýmislegt órithæft, þó ekki væri nema svo það léti hann í friði - að mestu.
Þess vegna veit hann, að Vitund er Vættur, og að málvitund fjalla okkar og smáfánu, þjáist þögul en frjó. Við höfum átt tónskáld sem nema tóna fjalla, ljóðskáld sem nærast á ilm morgundaggar og sagnaskáld sem prjóna ómglit sögusteina í samræmda úðga heild.
Árin 910 til 930 voru margir höfðingjar á landinu, hver í sínu héraði, sumir voru stórhöfðingjar sem numið höfðu stór héruð, með mörgum býlum og kotum, aðrir voru goðar, mis vel girtir, sem gættu siðar vors og laga, allir ræddu þessir við duldir heims og veru, og allir gættu vel að vanskrýddum hug.
Sveinbjörn Beinteinsson Allsherjargoði - þegar hann samdi rit sitt Bragfræði og háttatal - reit ljótt er að sjá fagra hugsun í tötrum. Minn hefur ekkert vit á þessu, enda sneyddur brageyra, en sumt er þó svo rétt að gjörsneyddir sjá.
Þorsteinn Ingólfsson Arnarsonar, átti sér sýn, hvers gekk með vættum. Hann átti eitthvað undir sér, enda höfðingjasonur og goði Kjalarnesþings, bæði. Hann sendi mann til Gulaþings í Noregi að fullnuma sig í fræðum vors SIÐr, og annan sendi hann um landið allt, að ræða við höfðingja héraða þess og goða. Tökum snúning á hversu stórhuga þetta var.
Nýverið átti minn samræður við öldunga bæjarfélagsins, í heitu pottunum. Eftir nokkuð þref, sammældumst við um eitt, en það var streð að ná því, að mesta svikamylla okkar tíma, hérlendis, væri þegar fólk borgar fimmfalt, áttfalt og jafnvel tólffalt fyrir heimili handa sér og sínum.
Þegar minn spurði hvernig við - almennir borgarar - gætum sammælst um í einu öflugu grasrótarátaki, sem gæti tekið tvö til fimm ár, að þvinga elítuna til að laga þetta ástand, fór allt í bál og brand. Hver og einn með sína skoðun, allt frá hælbítnum sem fjargviðrar allar þekktar röksemdir að sé fyrirfram dauðadæmt, til allra hinna hver með sínar steinvölur í skýlum sínum. Ekki var með nokkru móti hægt að ræða svo mikið sem svo að hugsanlegt væri að sammælast um eitt atriði, þ.e. að ekkert annað verkefni á okkar tíð væri verðugra, hvað þá ræða mögulega átakatækni né valsbrögð.
Þorsteinn, hverrar minningar elítan skirrist að votta, né styttu af reisa, sá hvernig mætti ráðast á þennan garð og mölva mélinu smærra. Honum tókst að fá þær fimm eða sex þjóðir sem numið höfðu sér jörð á landinu, til að sammælast, með friðsemd og glæddir aldanna skrúð - (Inspired beyond time itself).
Hér skyldu menn koma saman í friði, þeir skyldu hafa sín 39 sjálfstæðu héruð sem hefðu sín staðbundin laga- og dómsþing í sumarbyrjun ár hvert, og héruðin kjósa menn til Allsherjarþings um mitt sumar ár hvert. Þar skildi SIÐr vor ræddur, og leiddur í lög með friðsemd og árvekni.
Þetta var fólkið sem þvingaði Noregskonung á fjórtándu öld til að hlýða sér, með því að sniðganga valdið. Synir þeirra skömmuðu löngu síðar Danakóng, svo hann hætti við að kveða Alþingi niður. Þetta var fólkið sem leiddi í lög að þú gast sniðgengið skattheimtu færu höfðingjar rangt með valdið. Þetta var fólkið sem leyfði konum að skilja við menn sína, þegar ekkert annað ríki leyfði það í veröldinni, hvorki þá né næstu þúsund árin.
Þetta var fólkið, hvers ríki eitt ríkja í þekktri sögu, valdi sér flókin siðskipti með orðum og göfgi hvers viska er enn órýnd, og hliðruð með flónsku og fjasi.
Það var margt á Gullöld okkar, sem var brætt í gjalt sjö öldum síðar (1662) sem skarar enn í dag framar nokkru því sem þekkt er í mannaveröld samtímans. Þetta var fólkið, sem kom saman sumarið 930 AD, og bræddi saman fimm eða sex þjóðir og smíðaði nýja, með hugann einan hljómfagran að dulhjúpuðu vopni.
Þetta er fólkið sem gaf okkur þá málvitund - svo vitnað sé í Kolskegg Ýrberason - hvers kyngi enn hefur þann mátt að steypa fjöllum í sjó fram. Þau nýttu sér uppistand á stokkum, sem kvatt gátu skottur og bola í kúta og völur, og prjónað í vindinn þann seið, að vættir veraldar vörðu landið, þar til menning þess dó.
Í fyrra rakst minn á bók í hillu Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum, Limrur, eftir Gísla Rúnar Jónson - blessuð minning. Gísli sem samdi "Algjör sveppur" og "Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka" og var aðal sviðsprakkarinn fyrir þáttunum "Heilsubælið í Gervahverfi" var einn af síðustu grínprökkurum Íslands. Hann þurfti ekki að stæla erlent klám né semja hvellandi pjátur, til að skemmta samtíma sínum og skilja við dýpra en sjálfshól og vinsældaskrjáf.
Ég hætti við að kaupa bók Gísla Rúnars - en blaðaði vandlega í og hugfesti mér hugmynd sem rit hans glæddi mér.
Kannski.
Kannski ekki.
Hver veit.
Hitt er víst, að falskt skin samanburðar við erlent glys og glamur, er ekki sá hamur er við best skrýðumst. Að ástand það muni lagast, já, en hvort það gerist á okkar tíð, tja, veideggi.
Hitt er víst, að stundum þarf að týna sjálfum sér til að tifa, og elta glysvini hjóms og fjass til að sjá og skilja traustu leiðans fól.
Okkur var smalað hingað fyrir tólf eða þrettán öldum, af ástæðu, þolgóðri, og við varðveitt, óverðskulduð.
* Túlkun (Translation) er þegar túlkað er beint og jafnóðum, en Þýðing (Compilation) er þegar gefinn er gaumur að merkingu, frumgerð og sniði, svo úr verði eitthvað varanlegra. Víxla má hugtökum þessum, en hér er notast við skilgreiningu úr tölvunarfræði.
Sem minnir á annað; þegar málvitund okkar enn hafði djús, voru búin til orðin Tölva og Vista, var en ekki er, en verður á ný ef vill.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning