Sóleyjar þáttur Pálsdóttur -- móðir, hjúkrunarkona, ljósmóðir, eiginkona

Sóley Pálsdóttir var fimmtán ára gömul, haustið 1913, þegar hún fyrst kenndi manns. Hún var alin upp á Berustöðum í Hnúkshreppi, Skagafirði, og vissi vel við hverju mátti búast. Alin upp við búskap, hafði hún aldrei þurft neina kynfræðslu, enda oft séð hvernig kindurnar, kýrnar, hestarnir, hundarnir og kettirnir bera sig að. Hún vissi vel hvað kynlíf væri og við hverju mætti búast, kannski ekki öll atriði þess og blæbrigði, en nóg samt.

 

 

Á þeim tímum var algengt að öll fjölskyldan þvoði sér í baðstofunni, á tilteknum degi, oftast á laugardögum, svo líffræðilegur munur kynjanna var augljós. Börn og unglingar lögðu því saman tvo plús tvo, og fengu út rétta niðurstöðu, svo frekari menntun og kynfræðsla var óþörf.

Þannig séð var Sóley ekkert hissa á hvað gerðist þegar það gerðist, ekki þannig séð. Hún vissi að hún var orðin kynþroska, hafði fyrst „á klæðum“ tveim árum fyrr og vissi að náttúran sér um sína, að einungis væri það spurning um hvenær, en ekki hvort, að hún myndi kynnast ungum manni, að hún myndi líklega eignast eitthvað af börnum, og eitt var öruggt, hún yrði bóndakona en ekki kaupstaðarkona.

Hún var hins vegar hissa á því annars vegar að henni fannst vont þegar meyjarhaftið rofnaði, en að hún vildi samt meira, eins og straumur sem fór um hana alla, viðloðun og samloðun tveggja líkama, meðan þau færðu hvort annað flumbrulega og klaufalega úr fötunum, og veltust um í hlöðu, þær fimm eða fimmtán mínútur sem öll herlegheitin tóku, hins vegar að hún var ekki viss hvort henni í raun líkaði við þetta, hvort hún kærði sig um að slíkt væri endurtekið.

Mest var hún þó hissa á hvernig það allt spilaðist upp. Það voru töðugjöld í hreppnum og hún þekkti Jón Hreinsson, son Hreppstjórans. Hann var tveim árum eldri en hún, en það þekktust allir í sveitinni. Jón var yndælis piltur, og hvers manns hugljúfi. Þau höfðu dansað saman á töðugjöldunum, en tja, þau höfðu dansað við fleiri en hvort annað, en þau höfðu farið saman útfyrir garð hjá samkomuhúsinu, sem stóð steinsnar frá Grund, og þau höfðu prófað að smakka Ákavíti sem Jón var með á pela.

Fyrir þeim báðum var dálítið spennandi að smakka Ákavíti, en að nokkrum sopum liðnum fundu þau bæði á sér, og eitt leiddi af öðru. Fyrr en varði var hún ekki lengur óspjölluð stúlka, hún hafði kennt manns. Hann var kunningi hennar úr sveitinni, meir en það, þau voru vinir og þekktust vel. Kannski hafði hann eitthvað fiktað áður. Þau ræddu þetta ekkert. Þau lágu saman, í fangi hvors annars í smástund, tíndu á sig spjarirnar og voru aftur komin á töðugjöldin svo lítið bar á, áður en þeirra var saknað.

Sóley ákvað að gleyma þessu, vera ekkert að velta því frekar fyrir sér, en hún fékk ekki að gleyma. Þrem mánuðum síðar hafði hún ekki haft á klæðum eftir venju, og hún var rétt byrjuð að þykkna undir belti. Hún hafði svosem vitað þetta svo til strax, og það hafði gefið henni tilefni til að vangaveltna, hvernig hugurinn skynjar náttúruna og veit ýmislegt sem þó er ekki vitað. Hún hafði þó vonað að þetta væri bara ímyndun, og ef það væri ekki ímyndun, að hún myndi láta fóstrinu. Hún vissi vel að fyrstu tíu vikurnar væri ekki víst hvort hún héldi, en hún vissi ekki hvernig hún vissi það.

Aðalheiður „Heiða“ móðir Sóleyjar vissi vel hvað hafði gerst, hún hafði fylgst með um haustið, eins og allar þroskaðar mæður fylgjast með gjafvaxta dætrum sínum á vissum tímabilum við vissar aðstæður, og hafa gert í gegnum allar aldir. Hún hafði fylgst með hvort í kjölfarið hefðu verið einhverjar laumuferðir – hver veit hvernig hugar leita saman, hugsaði hún með sér – en hún hafði einskis orðið vör, hins vegar sá hún vel hvað var að gerast í líkama dóttur sinnar.

Heiða átti sjálf fimm börn, og var Sóley næst yngst, þær mæðgur voru frekar líkar, báðar frekar nettar í vexti, ljóshærðar og brosmildar, dóttirin ívið hærri en móðirin, báðar þekktar fyrir að vera orðvarar en þó léttar í lund og gátu báðar verið frekar beittar í tilsvörum, en aldrei þannig að meiddi, frekar þannig að drægi fram hið spaugilega. Vinnusamar og úthaldsgóðar landsins dætur, ráðagóðar og þolinmóðar, og áttu báðar létt með að umbera flónsku og geðbrigði annarra.

Páll, faðir Sóleyjar, var gjörólíkur konu sinni, hann var þrekinn og duglegur til verka, en að sama skapi gat verið litríkur í allri sinni framkomu og atgervi. Hann gat verið uppstökkur og þá hvass, en jafn fljótur niður og hann var upp, og þekktur að trausti og öryggi þegar kom að samvinnu við aðra bændur í hreppnum, sérstaklega þegar mikið lá við, góður fjármaður en frábær tamningamaður. Yfirleitt var hann valinn fjallkóngur í göngum og oft var hann fenginn til að fóstra tveggja og þriggja vetra hesta sem vonir stóðu til að yrðu góðir til útreiða eða smölunar, og brást ekki að hann dró fram hið besta í öllum þeim folum og merum sem hann fóstraði.

Sóley erfði ást föður síns á hestum og eyddi hverri stund með hestum, sem hún gat stolist til. Var eftir því tekið að hún gat setið – að því er virtist – hvaða hest sem væri, og riðið um bæjarlandið, berbakt og oft teymislaust, nema kannski með smá spotta milli fingra hennar og flipa hestsins, meira til að gefa létt skilaboð en að stjórna.

Hvernig svo sem Sóley sá fyrir sér náttúruna, sveitina, eða framtíðina, var morgunljóst að hestar yrðu hluti af lífi hennar svo lengi sem hún kæmist upp með. Eitt það besta sem hún vissi, var að laumast til, þegar hún vissi að faðir hennar vissi ekki til, og finna Sörla, úti í haganum, lauma á hann snærinu, smeygja sér á bak honum og skreppa í smá útreiðartúr með besta vini sínum. Sörli var einn af þessum sérstöku reiðhestum sem fáir geta setið, faðir hennar hafði fengið hann einmitt vegna þess að þó hann væri allra hesta fallegastur, sterklegur og reisnarmikill, réðu fáir við hann og þeir sem gátu riðið honum komu illa farnir af honum og báru honum illa söguna, hvort Palli á Berustöðum gæti tjónkað við hann, eða hvort hann færi í gúanóið.

Sörli og Páll áttu lyndi saman og Páll reið helst engum öðrum hesti, lét klárinn svo til strax við Pál eins og þeir væru skapaðir af náttúrunni til þess eins að renna saman við fjöllin í göngum og rekstri, eða á ferð til messu á sunnudögum. Var eftir því tekið hversu vel þeir tveir áttu saman og óttaðist Sóley hvernig pabbi tæki því ef hann vissi að hún átti í leyndum ástum við Sörla, að hesturinn var sem ljúfur hnúkaþeyr með hana á baki, niður við eyrar, fram með ánni, uppá heiði, eða hvert sem þeim báðum hugnaðist, þegar enginn sá til.

Palli hafði vel tekið eftir því sama og Heiða, og hann tók vel eftir hvernig það raktist fram, en hann vissi af reynslu að á bak við ljósa lokka og blá augu konu sinnar, lá viska sem hann gat treyst, svo hann sagði ekkert. Þegar þar að kom að kona hans hvíslaði að honum, eitt kvöldið rétt áður en þau sofnuðu, skildi hann hvernig hún ætlaði sér að leysa málin, hjúfraði sig betur undir voðirnar og sofnaði við faðm hennar, eins og sá maður einn, sem lifir í samræmi við vilja landsins og jafnvægi himinblámans.

Að morgni segir hann við dóttur sína, „við skulum nú fara í smávegis útreiðartúr saman, Sóley mín, hver veit hvenær við getum það næst.“ Hann vissi að líklega var Heiða búin að ræða við dóttur sína, hann innti ekki eftir því. Sóley hins vegar gladdist, þegar hún sá föður sinn söðla Sörla með hennar hnakk en ekki sínum. Hann vissi þá eftir allt saman. Þau riðu upp að Seli og áfram inn að Hagagili, og aftur til baka, voru hálfan daginn, höfðu tekið með sér kaffi og biskví, nutu saman samveru með landinu og hestunum, spjölluðu mest um kindurnar, en Páll var áhugasamur um sauðfjárrækt og valdi undir hrútana, Sóley var sjálf efnileg fjárkona, og þeim rættist tíminn stuttur saman.

Þá vikuna tóku þær mæðgur sig upp saman, báðar með tvo til reiðar, riðu út að Grund, sem var í leiðinni til heiðavegs, fjárgötu sem lá yfir fjöllin til suðurhluta Eyjafjarðar og þaðan upp heiðar að Grímsvötnum og áfram austur á Hérað. Þær þáðu kaffisopa á Grund, hjá Jónu Sigurðardóttur, konu hreppstjórans, móður Jóns sem áður er getið. Hver væri ferðin á þeim mæðgum?

Heiða væri á leið til Eyglóar systur sinnar á Egilsstöðum og ætlaði sér að vera þar um veturinn. Hún væri þunguð af sínu sjötta barni og þar sem nokkuð var liðið frá fæðingu Júlíusar, síns yngsta, og meðganga hans hafði ekki gengið sem best, vildi hún vera hjá Eygló systir sinni, sem gift var Reykvískum unglækni er vann með Héraðslækni á Héraði. Hún tæki Sóleyju sína með, því hún vildi leita leiða til að koma henni í einhverja menntun, eða í vist hjá efnuðu kaupstaðafólki.

Á þessum árum voru Hússtjórnarskólarnir ekki komnir til, en í sumum héruðum var kominn vísir að þeim, að þroskaðar konur tækju að sér þrjár til fjórar ungar stúlkur yfir vetrartímann og skóluðu þær í nytsamleik, var umræða þegar hafin víða um land á þessum tímum, og var samfara þróun Kaupfélaganna sem þá voru að hefja byltingu á lífinu til sveita, að koma á fót einhverjum tækifærum ungra kvenna, til mennta, sem síðar rættist í formi Hússtjórnarskólanna.

Þetta þótti Jónu allt saman vel ígrundað, en væri Heiðu óhætt að fara ríðandi alla þessa leið. Það væri stutt í snjóa og auk þess allra veðra von á Hólsfjöllum. Ekki hafði Heiða áhyggjur af því, hún væri á sínum bestu reiðhestum og þekkti til víða á leiðinni þar sem þær gætu beiðst gistingar, og ef þreyta gerði vart við sig, myndu þær þá gista aukanótt eða tvær. Auk þess hefði hún Sóleyju sína með sér.

Þar með var sögunni plantað og þær mæðgur riðu á Hérað. Voru veður góð alla ferðina, gistu þær á ýmsum bæjum á leiðinni, og tvær aukanætur á Grímsstöðum á Fjöllum, og voru í góðu yfirlæti hjá Eygló um veturinn. Fóru þær lítið út á meðal fólks, en Eygló tryggði að rétt saga bærist út. Um veturinn kynntist Sóley vel störfum Sigurðar, manns Eyglóar og veittu móðir hennar og frænka því athygli að hugsanlega væri aðhlynning sjúkra henni eðlislæg og opin.

Um vorið fæddist Heiðu, þannig, sonurinn Páll yngri, og þegar leið á sumarið bpti móðir og sonur nógu hraust til að ríða heim. Sóley hafði mjólkað vel handa syni sínum – eða bróður – og fengið fáeinar vikur með honum, og vel gekk þegar réttur tími var kominn, að venja hann af, og hemja nytina.

Kom þá Páll sjálfur með tvo til reiðar að líta soninn augum og fylgja konu sinni heim, höfðu þau því sex hesta til reiðar og fóru þau rólega yfir, nutu vel sumarnóttanna á heiðum, rétt eins og þegar þau voru ung, árið áður en Margrét, þeirra elsta, fæddist. Sóley varð eftir hjá móðursystur sinni. Hún var miður sín að sjá á eftir bróður sínum, móðurástin greip hana og henni fannst örlögin vond.

Systurnar Eygló og Heiða höfðu þó ráðið henni aðra leið eftir reynslu vetrarvistar þeirra og þess sem þær sáu til unglingsstúlkunnar.

Eygló hafði skrifast á við mágkonu sína, Mjöll, í Árósum, í Danmörku. Búið var að sækja um fyrir Sóley í hjúkrunarnámi við spítalann í Árósum, fyrsta kastið fengi hún vist hjá þessari mágfrænku sinni og gæti lært af henni hvernig millistéttin býr, lært dönsku og kynnst aðstæðum. Bættist þetta á þunga lund Sóleyjar, þó sagði hún fátt, en duldist engum að henni þótti örlögin voðalega vond.

Í sumarlok sigldi hún frá Seyðisfirði til Danmerkur. Mjöll hafði skrifað þeim leiðbeiningar og um leið og Sóley kom af skipinu í Danaveldi, var stutt af höfninni á lestarstöð og þaðan með járnbrautarlest til Árósa. Þar tók Mjöll hlýlega á móti henni, leiddi hana heim á leið, vissi hún vel hvert leyndarmál Sóleyjar var, en óþarfi að hafa á því orð sem engum kæm við. Tveim dögum síðar myndi hún hefja vistina, fá einhver verkefni á heimilinu og hefja tilsögn í smávegis dönsku áður en hún hæfi nám og starfsþjálfun á spítalanum um haustið.

Næstu vikur hafði Sóley nóg að gera, og þó þunglyndið eftir viðskilnað sinn við móður og son sem hún skyldi líta á sem bróður, og að vera fjarri bæjarlæknum, að vera fjarri hestum og kindum, að missa af mjaltatímum í fjósinu – en hún elskaði mjaltir og að hugsa um kýr. Að geta ekki hent spýtum fyrir Snata eða æft sig að baka með Margréti eða rifjað upp þjóðsögur með Júlla bróður sínum, söknuður og heimþrá, auk sinna vondu örlaga, reif og klóraði í sál hennar og hún tók á öllu sem hún átti að láta á engu bera, og íþyngja ekki öðrum með harm sínum, heldur bera aðeins á borð bros sitt og annars bjart geðslag.

Þannig hófst veturinn og leið, hún lærði hjúkrun í bæði bók- og verknámi og fann fljótt að námið átti vel við sig. Hún var altalandi á dönsku þegar leið að páskum og vonaði að kannski gæti hún ferðast heim í Skagafjörð um sumarið, en það varð þó ekki. Stríðið mikla – fyrri heimsstyrjöldin – hófst haustið sem hún kom til kóngsins Árósa, og virtist færast í aukana. Sumir ræddu hvort Danir myndu dragast í hildarleikinn.

Danska konungsríkið og Prússnesk-Þýska keisaradæmið höfðu gert með sér samning, að særðir og veikir sjóliðar úr Þýska flotanum gætu fengið inni á dönskum spítölum, og höfðu fimm kafbátamenn þegar legið inni, veikir eftir eitraðar gufur um borð, á þeirri hæð spítalans þar sem Sóley var í læri.

Veturinn sem hún kom út, hafði líkami hennar verið nokkuð fljótur að jafna sig eftir meðgöngu og barnsburð, og eftir því sem hún gleymdi sér við nám og störf fór hryggð hennar að jafna sig. Mjöll og hún áttu góða lund saman, og Lars maður Mjallar var kurteis og jafnlyndur maður, hann var nokkuð eldri konu sinni og vann lögfræðistörf á skrifstofum Árósaborgar. Á heimilinu var ágætis bókasafn og fann Sóley að hún hafði ánægju af að lesa, sérstaklega ævisögur.

Ári eftir að hún sigldi út fékk hún gildingu sem Hjúkrunarlærlingur, en venjan var sú hjá dönskum sjúkrahúsum að lærlingar væru aðeins í almennri aðhlynningu við sjúklinga fyrsta árið, meðan í ljós kæmi hvort stúlkur hefðu til að bera lund í að hugsa um mjög veikt fólk, eða bregðast við andlátum og sárum, auk þess hvort þær hefðu til að bera bókgreind. Sóley stóð sig vel í þessu öllu og var vinsæl meðal bæði starfsfólks og sjúklinga.

Þegar árið var liðið fékk hún því inni á heimavist Hjúkrunarlærlinga og hóf námið fyrir alvöru. Smámsaman læknaðist heimþráin, og eftir því sem hún vandist því að sakna Páls yngra, breyttust örlögin úr vond í bærileg og loks í góð, en ekki ágæt enn. Hún gætti þess að vera iðin, þegar frídagar voru frá námi og störfum, heimsótti hún Mjöll góðgjörðakonu sína og vinkonu, las bækur eða fór í gönguferðir með námsvinkonum sínum í görðum Árósa og pikknikk með dönskum hætti.

Henni var ljóst hversu góða hún átti að, og ekki síst hversu vitrar móðir hennar og frænka voru. Allt þetta höfðu þær séð fyrir sér þegar þær brugguðu örlögunum launráð. Hún lærði smávegis í ensku og þýsku í náminu og æfði sig að lesa ensk og þýsk fréttablöð, hún óttaðist hvernig færi ef stríðið færðist enn í aukana, sérstaklega ef Danir drægust inn í það, því hvað þá með Skagafjörð?

Hvað ef erlendur her kæmi til Árósa, hvað ef erlendur her kæmi til Sauðarkróks í Skagafirði? Hvað ef farsóttir og sultartímar væru framundan. Hvað ef nýtt og skelfilegt leyndarmál hennar yrði umsvifameira og jafnvel óstjórnlegt, eða öllum ljóst, aukreitis við leyndarmálið sem rak hana til Danmerkur.

Ungar konur í hjúkrunarnámi stunda dansleiki eins og aðrar ungar stúlkur, allra tíma. Fóru þær ætíð þrjár til fjórar saman, til að gæta velsæmis, og gættu hver annarrar, að ekkert slys ætti sér stað af því tagi sem Sóley hafði svo sannarlega kynnst af eigin reynslu. Dansleikur í upplýstum danssal, gönguferð og haldast í hendur, e.t.v. koss á kinn, kannski þiggja boð frá ungum liðsforingja eða læknanema eða háskólanema í lögum eða náttúrufræði, til að skreppa í pikknikk í góðum félagsskap, allt saman eðlilegur háttur í kóngsins Árósaborg. Ungt fólk þarf að kynnast og það kynnist, yfirleitt með velsæmi og með góðri pragt.

Sóley kynntist pilti fyrir áramót, þau hittust á tveim dansleikjum eða svo, með því sniði sem nefnt er, allt með sóma, tvö eða þrenn pikknikk, með kakó og samlokum, kannski smávegis að kyssast bak við tré meðan siðgæðis vinkonan leit undan. En fundu fljótt að þau voru ekki samlynd. Eins og gerist. Upp úr áramótunum og fram undir vorið, annað slíkt ævintýr, allt í velsæmi eins og til er ætlast, en með vorinu fann hún að hún vildi alls ekki upplifa aftur það sem hún hafði upplifað haustið sem hún varð fimmtán ára.

Þessar tilfinningar voru flóknar. Vissulega vildi hún finna sér mann og verða gift kona, gift hjúkrunarkona. Henni hafði ekki þótt vont að vera þunguð, þvert á móti hafði hún upplifað eins og svo margar kynslóðir ána hennar, að þungun getur verið og er yfirleitt ljúf upplifun. Hún saknaði þess að hafa barn sitt á brjósti, og hún vissi að sársauki barnsburðarins sjálfs væri eitthvað sem staðfestir atvikið, og gleymist, að allt hið náttúrulega ferli, að verða gift kona, að verða móðir, að vera hluti hinnar náttúrulegu rásar, væri hún í alla staði sátt við. Hún vissi af reynslunni að kynlífið sjálft hefur sína eigin vitsmuni og er í alla staði gott og vissulega eitthvað sem hugurinn leitar til, sérstklega þegar reynslan hefur kynnt það til sögunnar.

Hún fann hins vegar á sér að eitthvað í jöfnunni gekk ekki upp. Hún vildi frekar að það væri kona en karl, sem tæki þátt í þessu með henni. Hún skildi ekki sjálfa sig, en hún skildi samt, en hún gæti ekki rætt það við neinn, ekki frekar en fyrsta stóra leyndarmál örlaga sinna.

Eins og allar konur vita, kemur það fyrir í hópi náinna vinkvenna, og sérstaklega á heimavistum, að ýmislegt gerist sem síðar er geymt í leyndarmálakistunni. Alþekkt er í sumum menningar ritum að ungar konur hafa stundum æft sig saman í því sem fræg ljóðlína minnist á, kenndu mér að kyssa rétt og faðma nett.

Á dimmum kvöldum á heimavistum, sérstaklega stormasömum rigningarnóttum, er stundum betra að hjúfrast saman, það er hlýrra og notalegra þannig, eða þannig. Ung kona sem er sitt annað ár á heimavist hefur annaðhvort prófað ýmislegt eða hafnað því. Fyrir kemur að ungar konur hafa uppgötvað nýja hlið á sjálfri sér, og Sóley hafði vissulega orðið fyrir slíku, og lært að höndla eins og aðrar. Hún vissi vel að á heimavistinni voru tvö pör, hinar vissu það einnig. Hún vissi vel að fleira gerðist seint á kvöldin sem aldrei yrði rætt neins staðar.

Þær vissu þetta allar og yfirleitt gerist það fyrsta árið hjá ungum hjúkrunarnemum að þær flytja á milli herbergja og nota augnaráð og svipbrigði, sem gefa rækilega til kynna hvers lags sumar sætta sig við og hvað aðrar sætta sig engan veginn við. Svona hlutir gerast bara og litið er svo á að þetta slípist til og fjari út, og viti menn, það gerist þannig.

Ein og ein hins vegar slípast í aðra átt og það fjarar ekki út, og Sóley var á þriðja ári í námi, öðru ári á heimavist, búin að læra það um sjálfa sig að henni líkaði ágætlega sumt sem best er að hafa engin orð á. Það sem hún var ekki viss með, hvort hún réði við það, því þó henni líkaði sumt sem hún hafði lært af öðrum ungum konum á heimavist, þá líkaði henni ekki hvernig það var að þróast innra með henni. Hvernig gæti hún snúið sér að hefðbundnu lífi karls og konu þegar námi lyki, hvort hún væri orðin sódómíti, hvort hún hefði vald yfir þessu, eða hvort það hefði vald yfir sér.

Hún vissi vel hvað Hin Heilaga Ritning hafði um slíkt að segja, og það skipti hana talsverðu máli, hún vissi ennfremur hvaða augum girndarhvöt hennar væri litin í samfélagi almennilegs fólks og það skipti hana jafn miklu máli. Umfram allt velti hún fyrir sér, því sem fyrr var nefnt, hvort hún hefði vald yfir hver hún væri eða hvort innri ókyrrð sem ekki þyldi dagsins ljós hefði þetta vald.

Hvaða ævintýri áttu sér stað þessi tvö ár sem Sóley var að uppgötva sjálfa sig á nýstárlega vegu og – að því er hana sjálfa varðar – spennandi, skal ósagt látið. Dvelja má við ýmislegt, en látum duga að algengt var á þessum tímum, að hjúkrunarkonunemar böðuðu sig saman og með reglubundnum hætti.

Ekki var komið rennandi vatn í húsum en sumir spítalar höfðu slíkt, en vatnið kom þá úr þar til gerðum tönkum en ekki úr leiðslum í gatnakerfinu. Þetta var þó óðum að breytast og á þessum tíma var lögð vatnslögn í hluta Árósaborgar, meðal annars í það hverfi sem Mjöll og Lars bjuggu. Var sérstakur hátíðisdagur þegar þau fengu vatnskrana í eldhúsið, og fáeinum vikum síðar baðkar með rennandi vatni og sérstökum hitakút sem hitaði með gasi.

Sama vetur kom einmitt hitakútur og rennandi vatn með sturtum fyrir heimavist hjúkrunarnema, en fram að því þurftu þær að skipuleggja baðdagana, hita þurfti vatn í riasastórum katli og skipuleggja hverjar fengju baðkörin tvö og í hvaða röð. Allar höfðu þær ánægju af þessum dögum, og hafði það ekkert að gera með nefnt leyndarmál sumra þeirra eða ævintýra kannanir. Þær höfðu allar gaman af því að baða sig og þurrka sig, og sumar að bera á sig olíur og snyrta sig, greiða, máta á sig betri kjóla og pils og dekra við sig.

Sóley og sumar aðrar, nutu þessara stunda af meiri dýpt en hinar en þær gættu þess að ekki væri eftir því tekið. Sem fyrr segir, þá má draga margt fram úr innri þróun og reynsluheim af þessu tagi fyrir unga og hugsandi konu, en hér er þetta dregið út til þess eins að varpa ljósi á hugleiðingar hennar um sjálfa sig og téðar áhyggjur af hvort hún veldi hvötum sínum.

Þannig liðu námsárin, henni gekk vel í náminu, heimþráin gleymdist, söknuður eftir syninum – bróður sínum – mildaðist, hún uppgötvaði að hún vildi frekar verða piparjónka en gift kona, en langaði þó að eiga eðlilegt heimili og börn, en þrátt fyrir þessar flóknu togstreitur vissi hún að hún vildi læra ljósmóður að hjúkrunarnámi loknu.

Hennar besta vinkona, Margarete, sem var frá Billund á Mið-Jótlandi, átti enga hlutdeild af innri vangaveltum varðandi hneigðir sínar, enda Margarete ein þeirra sem hafði alfarið hafnað öllu slíku, utan eitt skipti sem engum kom við. Þær stallsystur ræddu að öðru leyti allt milli himins og jarðar og ákváðu að fara saman í ljósmóðurnámið.

Veturinn sem stríðinu mikla lauk tilkynntu þær yfirhjúkrunarkonunni hvert hugur þeirra stefndi, sem ræddi þá við yfirlækni spítalans, og var allur undirbúningur léttur. Um vorið þegar þær kláruðu Hjúkrunarkonunámið, fóru þær beint í starfsnám á þeirri hæð sem ætluð var sængurkonum og fundu þær vinkonur fljótt að ljósmóðurhlutverkið átti vel við þær.

Veturinn eftir voru þær í samhliða verk- og bóknámi, og voru auk þess samhentar að hjálpa hvor annarri og veittist námið vel. Þann vetur kynntist Sóley ungri konu, þrem árum eldri, sem vann hjá einu af Apótekum Árósar. Tove var fædd og uppalin í Árósum, hafði verið eitt ár á Hússtjórnarskóla suður í Slésvík-Holtsetalandi. Hún var lífsglöð og glaðbeitt stúlka sem unni sér best í útivist þegar hún var ekki við störf í Apótekinu, hún var lítið fyrir bækur og ljóð, en naut gönguferða því betur og allskyns handavinnu, og voru nær öll föt hennar saumuð af henni sjálfri og af smekkvísi.

Þennan vetur hafði Sóley einmitt skráð sig í hannyrðakvöld, en slíkt var algengt í það minnsta í dönskum og sænskum borgum og bæjum, að konur kæmu saman á hannyrðakvöldum og lærðu hver af annarri allt frá útsaum til fatagerðar og prjóns. Sóley sjálf var meir fyrir bókina en hannyrðir, en þótti skynsamlegt að læra handavinnu og þess var skammt að bíða að hún og Tove fylgdu hvor annarri, í sporvagninum og gönguspölinn heim til annarrar hvorrar, að hannyrðum loknum. Hvað gerðist bak við tré í lystigarði eða annars staðar sem hægt var að finna hlýlegan stað, kom engum við, eða hvort tvær ástfangnar konur leiddust þegar lítið bar á, þess þá heldur.

Hitt er annað, að Tove var trúlofuð ungum lyfjafræðingi, þeim sem hafði útvegað henni afgreiðslustarfið, og dró enga dul á að hún ætlaði sér að verða gift kona í Árósum, að hennar tilvonandi væri lærður lyfjafræðingur, og að þau ætluðu sér að stofna heimili eftir giftingu á sumri komanda.

Tove útskýrði fyrir Sóleyju að það kæmi ást þeirra ekkert við. Ást þeirra væri eitthvað sem ekki þyldi dagsins ljós, að gifting af því tagi sem hún ætlaði sér, væri náttúrulegt eða eðlilegt ferli, að Sóley sjálf þyrfti að hugsa sinn gang. Að ekkert þyrfti að breytast, þannig lagað, um sumarið, annað en að hún myndi vera með einhvern hring á fingrinum. Þær gætu áfram hist svo lítið bæri á, fólk væri ekki að búast við neinu ónáttúrulegu, af tveim vinkonum sem verja stundum saman.

Sóley fannst aftur að örlögin væru henni vond, hún vildi að þær flyttu saman til stórborgar á borð við London eða Berlín, hún kunni hvort eð er smávegis í bæði Ensku og Þýsku, að hún sem hjúkrunarkona og Tove sem ómenntuð starfskona, gætu vel gert eins og svo margar piparjómfrúr gera, að deila saman húsnæði, eða þannig. Þetta væri þekkt í Evrópskri menningu, og best væri að gera það í ókunnri en stórri borg.

Tove tók þetta ekki í mál, hún væri frá Árósum, öll hennar fjölskylda væri þar, hún vildi verða fjölskyldukona og móðir, það hefði ekkert að gera með hneigðir og tilfinningar, að Sóley; "ástin mín, þú hugsar of mikið."

Um sumarið giftist Tove, þær reyndu að hittast tvisvar, kannski þrisvar, þegar leið að hausti var ljóst að þessi flókna staða gengi ekki upp. Sóley var nú útskrifuð sem bæði Hjúkrunarkona og Ljósmóðir. Hún ákvað að tími væri kominn til að halda heim, hitta Pál yngri sem nú væri sjö ára gamall ungur drengur, og vildi kynnast stóru systur sinni. Hún hafði skrifast á við móður sína allan tímann sem hún dvaldi í danaveldi, og hún var lífsreyndari en gengur og gerist, og það með smá twist, eða þannig.

Hún hélt heim í Skagafjörð, og voru fagnaðarfundir með henni og foreldrum hennar, Páli og Aðalheiði, yngsta bróður sínum Júlíusi og syninum, allra yngsta bróðurnum Páli yngra. Margrét elsta systir hennar var nú gift kona á Króknum (Sauðárkrók) og fella hafði þurft Sörla vin hennar árið áður, en Berustaðir, fjallalækurinn, Selið og fjósið og fjárhúsin, voru eins og vera bar, Snati var horfinn til feðra sinna og Lubbi kominn í hans stað, allt hafði breyst, en ekki hið ytra, heldur í þeim sem sér.

Hún skrapp út á Krók með föður sínum, lagði inn pappíra hjá Sýslumanni, og fljótlega fékk hún erindisbréfið, hún var nú lögskráð Hjúkrunarkona og Ljósmóðir á Íslandi, aukreitis við Danmörku. Ekki var laust pláss fyrir hana á litla sjúkrahælinu sem starfrækt var, á Króknum, á þessum tímum, en stundum var hún fengin til að vera viku og viku á læknissetrinu á Hofsósi, eldri hjúkrunarkona læknisins þar var mishress og þótti gott að fá aðstoð. Stöku sinnum var hún einnig kölluð í fáeina daga út á Krók, en þær sem sinntu því hjúkrunarhæli, þótti sér minnkun í dannskt menntuðu ungu konunni frá Berustöðum, öfugt við Hofsós þar sem þeirri gömlu þótti vænt um að geta lært nýjungar af þeirri yngri.

Veturinn leið og fram að vori, smám saman spurðist út í sýslunni, hversu gætin og fær ljósmóðir Sóley var, og hún því smámsaman eftirsótt, út með firði, yfir í Eyjafjarðarsveit og alla leið að Blönduós, aldrei var að vita hvenær reiðmaður guðaði á dyrnar og spurði eftir henni, því þó aldrei komi á óvart þegar líður að fæðingu, er sem reyndari konur vilji ekki kalla til ljósmóður of snemma, af vissri hjátrú, nema þær séu þess vissar að til þurfi. Dugar að láta vita, svo ljósmóðir gæti komið á síðustu stund ef nauðsyn bæri til. Þannig er látið berast, að líður að fæðingu og gætnar ljósmæður og athugular, sem Sóley reyndist vera, ung að vísu en dóttir móður sinnar að viti og innsæi, hafði ætíð tilbúið það sem þurfti til, ef hún væri sótt í skyndingu, sem gerðist sífellt oftar.

Árið eftir kom bréf frá Margarete, hún var nú sjálf búin að finna sér mann, og það ekki af verri kantinum, lögmenntaður ritari hjá útgerð í Þórshöfn, í Færeyjum af öllum stöðum. Þar var sæmilega vel útbúið hjúkrunarheimili, sem vísaði til þess að verða einn daginn full útbúið sjúkrahús, og „Mags“ hafði fengið þar starf sem fullgild Hjúkrunarkona, en alls voru þær fjórar við störf, og viti menn, þörf á þeirri fimmtu, Mags hafði nefnt Sóleyju við yfirlækninn, og hversu vel henni hefði gengið í báðum sínum námsgreinum, og að hún væri algjörlega vannýtt þarna í sveitinni norður í hafsauga, að starfið væri hennar, ef hún kæmi út fyrir haustið.

Sóley var nú búin að vera ár heima í sveitinni, hún sá fyrir sér að fyrr eða síðar fengi hún fast starf við hjúkrun, ef ekki í Skagafirði, þá Akureyri, og enginn skortur var á að liðsinna sængurkonum. Hún hafði lítið hugsað um „hitt leyndarmálið“ sitt þennan tíma, vissulega höfðu ein eða tvær freistingar verið í boði á Króknum, sem kannski voru kannaðar og kannski ekki, en hún var þess fullviss að „Sapphismi“ myndi ekki stjórna lífi hennar, heldur hennar eigin ósk og hennar eigin vilji.

Restin væri spurning um tíma og þolinmæði, í samstarf við vilja landsins og leiðsögn himnanna. Lífið væri jú, eftir allt saman, ekki svo flókið.

Upp úr stóð þetta ár, að hún eyddi öllum þeim stundum sem hún gat, með „yngsta bróður sínum.“ Hún vildi ekki missa úr einn dag með syni sínum og þær stundir sem voru í boði voru fullnýttar. Þau mæðgin áttu gott skap saman og þó óþarft væri að uppfræða snáðann um hvernig í pott var búið, vildi hún ekki missa af framtíðinni hans. Hún vandi sig við þau vondu örlög að vera stóra systir sonar síns, það yrði að hafa það, hún ætlaði sér ekki að missa hann aftur úr lífi sínu.

Að fara til Færeyja og vera þar hjúkrunarkona væri vissulega spennandi tækifæri, frá sjónarmiði menntunar sinnar og hversu hratt heimurinn var að breytast. Rennandi vatn að koma í bæi á Íslandi, eins og í Árósum, margir farnir að nota gaslýsingar, fólk að ræða komandi raflýsingar, bifreiðar að koma til landsins og rætt um vegagerð, heilsufar fólks að taka stórstígum framförum með bættu hreinlæti, meira framboð á erlendum eða framandi matvörum, að ekki sé minnst á framfarir í læknavísindum.

Hún myndi jú fyrr eða síðar kynnast rétta manninum sem gæti vegið upp á móti óæskilegum hvötum hennar, og þau myndu stofna til heimilis, og helst í hennar eigin sveit, í það minnsta innan sýslunnar, og hún þyrfti aldrei aldrei aftur að vera viðskila við Pál yngri. Hvort Páll eldri og Aðalheiður skyldu sumt varðandi dóttur sína eða ekki, vita aðeins þau tvö, en hitt er ljóst að þeim leist ekki á staðfastan vilja hennar til að vera alkomin heim og fara hvergi. Hún ætti betri kost á öðrum tækifærum. Þau voru hins vegar á þeirri skoðun að hún yrði að ákveða slíkt sjálf, frekari inngrip í örlög hennar, af þeirra hálfu, þó vont hafi súist í ágætt, væru ekki viðeigandi.

Einhverju sinni skreppur Sóley á Grund að vitja Önnu konu Jóns, barnsföður síns, sem þá var gengin átta mánuði. Hún dvaldi þar daglangt, Jóna móðir Jóns vildi allt vita um dvölina í Árósum, tja, allt var ekki nóg. Hún hafði ung dvalið eitt ár í Kaupmannahöfn, en faðir hennar hafði þurft út vegna langvinnra veikinda í lok liðinnar aldar, og hún hafði elskað allt sem viðkom stórborginni og lífinu þar. Árósar voru jú einnig stórborg, í það minnsta, væri borið saman við Reykjavík.

Þegar leið á kvöldið reið Jón samferða Sóleyju áleiðis heim, gerði hann sér upp erindi við Pál bónda. Þau áðu við grasbala við bugðu á ánni, og ræddu saman. Hann hafði oft heimsótt Pál yngri, hann sá svipinn þó aðrir sæju hann ekki. Hann kynni að reikna og lesa á milli línanna, hann hafði fljótt grunað sitt og lagt saman, og fengið rétta útkomu.

Nei, móður hans grunaði ekkert, en ef hana grunaði eitthvað, væri það vel geymt. Jóna væri vís til að vita meir en hún léti uppi. Kannski var það ástæðan fyrir að Sóley var látin dveljast daglangt, hugsaði Sóley með sér, kannski var það aðferð Jónu til að segja henni að hún vissi þó hún þegði, að hún vildi þekkja Sóleyju betur fyrir vikið, þó viðfangsefni samræðnanna væri fíngert orðahekl um lífið í dönskum borgum.

Kynsystur hennar, hún sjálf, tja, sumar flækjur eru best geymdar þar sem þær eiga heima, í kyrrðum og kytrum. Eins og Mjöll sagði eitt sinn, "við konurnar eigum okkar leyndardóma, yfirleitt fyrir hvor annarri fyrst."

Í hugleiðingum sínum, við hjalandi árbakkann, heyrði hún breyttan tón hjá Jóni. Hann vildi eiga við hana orð. Jú, hann skildi vel hvernig allt var í pottinn búið. Hann vildi ræða um hana sjálfa, um Sóleyju. Hún ætti ekki að láta Pál yngri binda sig við Berustaði, eða við hreppinn, eða héraðið sjálft. Hún ætti að sætta sig við að Páll yngri væri bróðir hennar en ekki sonur.

Hún væri margar álnir á undan öðrum konum héraðsins í menntun og reynslu, menntunin væri vottuð, en reynslan og innsæið sæist í augunum. Hún myndi aldrei njóta sannmælis í héraðinu, best væri fyrir hana að leita starfs þar sem hún væri metin að verðleikum, hún yrði aldrei ánægð annars, og, bætti hann við, "það smitar út frá sér."

Best væri fyrir hana að leita fyrir sér á Akureyri eða Reykjavík, eða jafnvel að fara aftur til Danmerkur, og finna sína hillu, og hvort hún ætlaði sér að pipra, eins og hann gruni, eða vilji finna sér mann og stofna fjölskyldu, þá finndi hún það aldrei í Skagafirði, ekki að óbreyttu.

Hún leit á Jón, hún maldaði í móinn, hún elskaði hverja þúfu hér í sveitinni, hún vildi vera þar sem fjölskylda hennar væri, hún þekkti alla í hreppnum, hún væri þegar farin að get sér góðs orðs. Hún hefði engar áhyggjur af framtíðinni, og fyrst hann hafði áttað sig á að þau tvö væru foreldrar Páls yngra, þá hlyti hann að skilja hverju hún hefði misst af, árin í Árósum.

Jú, allt er þetta rétt, en hitt væri einnig rétt. Að hann myndi ávallt líta til með drengnum, að hann myndi aldrei skorta neitt, og þegar tími væri til kominn og réttar aðstæður væru, fengi Páll að vita sannleikann, svo og hálfsystkini hans, en það væri langt í það, auk þess væri Jón með hugmyndir um, ef Páll væri þannig lyntur, sem allt benti til, yrði hann styrktur til mennta.

„Elsku Sóley mín, ég hef þekkt þig jafn lengi og ég hef þekkt sjálfan mig, það sem gerðist á töðugjöldunum, var eitthvað sem engum kemur við nema okkur tveim, við höfum verið vinir alla ævi og við verðum ávallt vinir, þú hefur þó ávallt verið þín eigin og þú er gáfaðasta viljasterkasta og heilasta kona sem ég hef kynnst, þú verður aldrei þú sjálf eins og þú vilt vera nema þú farir aftur út í heim og sigrir þar allt sem vill segja þér eitthvað annað.“

Hún leit í augu Jóni, og sá hvað hann meinti. Hún sá að allt sem hann sagði var rétt. Þegar heim var komið skrifaði hún Margarete, hinum besta vini sínum, utan fjölskyldunnar, að hún kæmi til Þórshafnar. Hún yrði hjúkrunarkona í Færeyjum. Þrem vikum síðar kom svarbréfið, viku síðar sigldi hún frá Sauðárkrók til Hafnar í Hornafirði, viku síðar þaðan til Þórshafnar.

Okkar unga, göfuga og ljúfa stúlka, stímdi út í heim, heimsborgarinn sem helst vildi vitja sauða á vorin og mjólka kýr á vetrum, og vitja sængurkvenna í sinni heimasveit, skildi nú, að þrátt fyrir hennar eigin vilja, gripu örlögin enn í taumhald hennar. Nei, þú átt að vera systir sonar þíns. Nei þú átt að elska konur en ekki karla. Nei, þú ert ekki sveitakona, þú ert heimsborgari.

Í Færeyjum tók Margarete, „Mags“ á móti henni með fögnuði. Vinkonurnar höfðu nú verið aðskildar í tvö ár og margt hafði gerst í lífi þeirra beggja. Mags þótti áhugaverð reynsla vinkonu sinnar af hjúkrun og ljósmæðrun á Íslandi, hún var dolfallin þegar hún fékk að vita leyndarmálið um Pál yngra.

„Við höfum verið vinkonur í öll þessi ár, ég veit hvað gerðist í lífi þínu þegar við lærðum Ljósmóðurina, ég hélt að ég vissi allt um þig, og nú þetta!“ Mags var sjaldan orðlaus en nú var hún í forundran, svo hló hún. Hún var snillingur í að leysa hluti þannig, alveg sama hver flækjan var, hún sagði eina setningu, sló sér á lær, hristi hausinn, og síðan hló hún að vitleysunni. Ef þurfti að ræða það frekar, voru færri orð en hnitmiðuð, betri en mörg og þrungin. Mags var soldið þannig, en í orðum hennar og hlátri var ætíð viska sem fór forgörðum hjá flestum.

Næstu vikur og allan þann vetur, voru skemmtilegustu vikur í lífi Sóleyjar, síðan árið á undan töðugjöldunum sem öllu breyttu, þegar hún undi sér í samlífi við dýrin heima í sveitinni. Þær vinkonur kynntust Þórshöfn upp á nýtt, Mags hafði verið þar um tíma, gift kona, hjúkrunarkona við sjúkraheimilið, og yngsta ljósmóðir bæjarins og sú viljuga til að fara út í þorpin á hinum eyjunum ef til þurfti, en hún hafði aldrei kynnst Þórshöfn, hana hafði vantað vinkonu sína.

Nú var besta vinkona hennar mætt og þær kynntust bæjarlífinu saman. Sóley fékk leigt rúmgott herbergi með sinni eigin eldunar aðstöðu, rennandi vatn var í húsinu og sameiginlegt vatnssalerni fyrir íbúa. Enginn illa lyktandi útikamar eða vatnstunna með brynningarvatni úti á götu. Þær fóru saman í gönguferðir út um eyjuna sjálfa, undu sér við að fylgjast með umferð við og á höfninni. Þær fóru saman á bókasafnið að lesa dönsku fréttablöðin og stundum fór Sóley með Mags og Bent manni hennar á samkomur, dansleiki eða ljóða- og sagnakvöld, eða í pikknikk á danska mátann.

Starfið á sjúkraheimilinu var fjölbreytt, þær voru aðeins fimm hjúkrunarkonurnar, og þar af þrjár ljósmæður en þriðja var elsta hjúkrunarkonan, og yfir þeim öllum fimm og farin að hlífa sér. Aðeins tveir læknar voru við hospitalet báðir miðaldra og frekar færir í sínu. Annar þeirra var fær um einfaldari skurðaðgerðir, hafði ætlað sér út í slíka sérhæfingu þegar hann var búinn í námi sínu í Kaupmannahöfn, og hafði eytt heilu ári á herspítala utan við París á stríðsárunum.

Alls kyns sjúkdómar og veikindi rákust þarna inn, en Sóley og Mags voru vanar meiri sérhæfingu í náminu í Árósum, og þær fögnuðu því báðar að geta látið meira til sín taka við smærra sjúkraheimili. Þær höfðu báðar elskað að læra um heilbrigðis og hjúkrunarnám og fundið vel síðasta árið hversu mikill styrkur það gat verið hvor að annarri þegar kom að aðhlynningu og að læra nýjar aðferðir bæði í hjúkrun og eins í þeim lyflækningum sem hjúkrunarkonur máttu taka þátt í.

Þannig liðu nú tvö árin, og lítið bar á girndarhvötinni sem ögrað hafði innra lífi Sóleyjar síðari hluta námsáranna, það var ekkert að þvælast fyrir, að henni fannst. Hún hafði áttað sig á því, við stuttu ævintýrin tvö á Króknum, sem áður voru nefnd, hvers kyns væri, Hún hefði þessa „Sapphisma“ hvöt, að hún gæti týnt sér í henni ef hún leyfði, en hún gæti haft hemil á því, með innri fortölum og umfram allt með iðni, hvort heldur við störf og nám og lestur, eða með samskiptum við gott fólk í umhverfi sínu.

Samræður hennar og Jóns höfðu opnað augu hennar fyrir henni sjálfri, og hún hafði hugleitt þau vandlega þær vikur sem liðu frá kvöldstund þeirra við árbakkann, þar til hún gekk á land í Færeyjum, hún væri sú heimskona sem örlögin höfðu mótað, en hún væri með eigin reiðtygi á ótemjunni, að kúnstin væri sú sama og þegar hún, ung sveitastúlka, samdi um vináttu við Sörla, reiðhestinn sem enginn réði við nema faðir hennar, fyrst með blíðu og gætni og síðan með einföldum snærisspotta.

Að hún átti tvö ævintýri við fagrar Færeyskar konur í Þórshöfn, þessi tvö ár, stutt en ástríðufull, kemur engum við nema Sóleyju sjálfri, eins og Jón hafði sagt, hún átti sig sjálfa og hún var hún sjálf og hún ákvað sjálf hver hún væri. Þriðja árið breyttist þetta þó dálítið. Hún kynntist giftri konu, á hennar aldri, tveggja barna móður, fædd og uppalin í Þórshöfn en gift miðaldra – gæfturíkum - skipstjóra frá Hjaltlandseyjum sem flutt hafði til Færeyja.

Þær hittust á laun hvenær sem þær gátu og gættu þess vandlega að enginn veitti því athygli. Ekki er auðvelt í bæjarfélagi á borð við Þórshöfn, á þriðja áratug tuttugustu aldar, fyrir tvær ástfangnar konur, og önnur þeirra vel gift, að hittast á laun og eiga í nánu ónefnanlegu sambandi. Sóleyju fannst erfitt, auk þess sem hún var vel meðvituð um hvað augum samfélagið myndi líta þær, ef upp kæmist, heldur hitt að hún vissi ekki hvernig hún ætti að gera upp við sjálfa sig að vera hjónadjöfull, að taka virkan þátt í framhjáhaldi.

Auk þessa átti hún í innri baráttu með hvernig tilfinningabrautir liggja. Hún var löngu búin að sætta sig við hvernig „Sapphismi“ hennar sjálfrar væri. Hún og Tove höfðu fundið saman tvenn rit á ensku og eitt á sænsku, sem fjölluðu um þessi mál og höfðu rætt þetta mikið. Hvernig tilfinningabrautir liggja og hvernig girndarhvötin virkar. Hvað hjúpar sjálfsmyndina, hvötin eða viljinn. Tove lét eins og sér þætti þetta auðvelt, hún væri venjuleg kona fyrst og fremst, en ætti sér ægimikið leyndarmál sem erfitt væri að temja en vonandi hægt að fela og lifa með. Sóley átti erfiðara með slíka niðurstöðu, væri hún Sapphic kona sem reyndi að lifa eðlilegu lífi út á við eða væri venjuleg kona sem ætti sér stórt og flókið leyndarmál. Tove var búin að leysa hvernig hún vildi lifa lífinu og móta sjálfa sig og einu gilti hvernig það væri rætt. Sóley var ekki búin að gera þetta upp við sig og ósátt við hvernig örlögin eiga til að breytast í ótemju, þó Jón sæi hana sem viljasterka konu, var hún ekki viss hvort hún væri það.

Þegar hún hafði sagt við Jón á sínum tíma, "ég er ekki viljasterk, ég er oft eins og strá í vindi," hafði hann glott og svarað, "þegar stálbrú svignar um millímetra í stormi hugsar hún það sem þú varst að segja, en enginn annar sér hvað hún á við."

Einhverju sinni, þennan þriðja vetur sinn í Þórshöfn, segir hún við Mags, þegar þær fylgdust að heim af vakt, „Mags, finnst þér ég vera viljasterk?“ Mags leit á Sóleyju, hallaði undir flatt eins og henni einni var lagið, og sagði svo hlæjandi, „nei, viljalaus eins og vetrarstormur.“

Tja, hugsaði Sóley með sér, hvað veit maður um sjálfan sig ef bestu vinir manns vita betur. Svo laumaðist hún að hitta Liselotte, vitandi að maður hennar væri á sjó og börnin sofnuð svo seint á kvöldin. Daginn eftir afréð hún, að hversu mikið sem hún elskaði Liselotte, væri þetta samband þeirra báðum óhollt, og að örin væru ekki brímans virði. Hún átti það enn til að sofna með tár á hvarmi ef hún leyfði sér að hugsa til elsku Tove sinnar og hún kærði sig ekki um dýpri og flóknari flækjur í hjarað sitt en orðið var.

Hún velti fyrir sér, meðan hún var að sofna, hvort hún ætti að fá sér kisu, eða kjölturakka. Hún saknaði dýranna í sveitinni. Kannski væri hún bara með þessum Sapphisma sínum að flýja dulda heimþrá. Jú, hún hafði nú eftir allt saman tekið smákúrs um nýstárlegar Austurrískar hugmyndir, varðandi sálfræði og drauma og duldir. Kannski væri ráð að verða pipruð kisukona. Hún brosti við sænginni og sofnaði vært.

Innan tveggja daga fann hún stund sem þær Liselotte gátu hist, það þurfti að gagna frá þessu. Hún átti frívakt þennan dag og vissi að báðir synir Liselotte áttu langa skólaveru þennan sólríka miðsvetrar dag. Hún skrapp í heimsókn, ekkert við að athuga, kona sem á frídag heimsækir vinkonu sína, húsmóður í bænum.

Nei, hún vildi ekki að þær færu afsíðis og ættu atlot saman, hún vildi kaffi, hún væri bara komin í kaffi. Liselotte skyldi strax, að nú ætti að ræða alvarlega saman. Grunaði hvernig færi, svo hún hellti uppá, dró fram smákökur sem hún hafði bakað um morguninn. Þær fengu sér kaffi og með því, þögn, en það yrði að ræða málin.

Eða það fannst Sóleyju í það minnsta. Hún vissi vel að hún hefði mátt fara aðra leið, fækka þeim skiptum sem þær hittust þar til þær dagaði uppi. Hún vildi það ekki, best væri að ræða málin. Hún elskaði þessa konu og hugsaði til hennar öllum stundum, hún gat ekki látið sambandið stranda með einhverjum aðferðum. Hún hafði alltaf rætt málin, hvort heldur það var samand hennar og Tove, eða þessi örlitlu ævintýri sem hún hafði átt.

Liselotte tók þessu illa. Hún var reið. Það væri engin ástæða til að hætta að hittast, Sóley væri að gera úlfalda úr mýflugu. Karlinn væri oft á sjónum, hann vissi vel að hún væri eins og hún er, að hann hefði vitað það strax í upphafi. Hún væri „konan hans“ þegar hann væri í landi en gerði það sem henni sýndist þegar hann væri á sjónum, og allt gengi vel meðan velsæmis væri gætt á yfirborðinu.

Sóley væri bara með sjálfselsku og sérkröfur, ef þær elskuðu hvor aðra gæti þetta gengið upp í mörg ár, jafnvel alla ævina ef þeim sýndist svo. Henni, Liselotte, væri sama þó Sóley finndi sér mann eins og hún sjálf, hún yrði afbrýðisöm í fyrstu en það myndi jafna sig. Sóley rökræddi, Liselotte varð reiðari og reiðari.

Þær voru báðar reiðar, sólin skein inn um eldhúsgluggann, Sóley stóð upp til að fara, nóg væri rætt, henni líkaði ekki að vera reið, líkaði ekki stóru orðin sem þær voru báðar að nota. Hana langaði að fara heim, fleygja sér á dívaninn sinn og gráta. Þær gengu báðar fram, æstar, orð voru sögð, önnur þreif í hina, hin þreif á móti, reiðin var allsráðandi, hurð innar á ganginum var opin, þær voru komnar þangað inn, reiðin tók af þeim öll völd, spjarirnar fóru af, æsingurinn magnaðist, þar til spennan var hjöðnuð, afgreidd, þær lágu sveittar, naktar, hlið við hlið, á þykku teppinu, framan við rúmið. Þær hjúfruðu sig í fang hvor annarrar í smástund, og grétu. Síðan var allt búið.

Næstu daga gekk Sóley eins og í leiðslu, vinnan var unnin vélrænt, hún var fjarhuga þegar hún hitti Mags og þær fóru í gönguferðir. Þessar vikur var vetrarsólin glaðbeitt á heiðum himninum, snjórinn var að bráðna, páskar á næsta leiti. Þær gengu út fyrir bæinn, á hæðina þar sem útsýnisskífan er, fjallahringur eyjunnar og Atlantshafið utan við höfnina. Örvar sem benda, ein þeirra bendir til Hjaltlandseyja í suðri. Þaðan sem maðurinn hennar Liselotte er frá.

Hún hafði stundum hugsað sér að fara þangað í frí. Hún hafði hitt tvo veika sjómenn þaðan, á sjúkarhúsinu, sem báðir kunnu fornmálið Norn, sem Hjaltlendingar höfðu mælt frá tímum landnáms á Íslandi, það hljómaði eins og forn Íslenska. Henni fannst það dálítið sætt, langaði að kynnast því betur. Íslendingar ræða aldrei um systurþjóðir sínar á Suðureyjum, en hún, heimskonan, vildi kanna málið.

Mags tók blíðlega í hönd hennar, hún leit upp úr hugrenningum sínum og á svip Mags, þar sem hún horfði á hana á móti. Vinkona hennar, vissi leyndarmálið, vissi líklega af hvað hafði verið að gerast um veturinn. Þær þurftu ekkert að ræða það. Stundum er ekkert betra að ræða málin, en oft er hluttekning í augnaráði trausts vinar, jafn vænt fjöllunum og hafinu, og allt sem vita þarf.

Um páskaleitið kom óvæntur sjúklingur á sjúkrastofuna, Íslendingurinn Trausti Guðmundsson, eldri maður, með báða fætur brotna, annar fóturinn opið sár, rifbein brotin í annarri síðunni, allur marinn og hruflaður, með heilahristing og óráði, hann hafði hrasað í Píramídafjallinu og oltið niður alla hlíðina og fundist nær dauða en lífi morguninn eftir.

Sóley hafði heyrt um bæði Píramídafjöllin í Færeyjum og séð annað þeirra, Kirvi og Kunoyrmakki eða Víkartindur, hún hafði aldrei hugleitt það nánar. Hún vissi að hún var ekki eini Íslendingurinn í Færeyjum, en henni hafði aldrei fundist það neitt merkilegt. Rétt eins og með hugleiðingar hennar um Hjaltlandseyjar, og enn sunnar, Orkneyjar, leit hún fólkið á þessum eyjum sem (því sem næst) sömu þjóð og hennar eigin.

Trausti var lengi að jafna sig, dögum saman var hann milli ráðs og óráðs. Hann var á sjötugs aldri og hafði búið í Klaksvík síðan um tvítugt. Hann hafði verið giftur konu þaðan, sem dó mörgum árum fyrr, og átti með henni tvo uppkomna syni og eina dóttur, en þau höfðu öll flutt heim í Þingeyjarsýslur, hvert af öðru. Hann var þaðan og átti venslafólk víða við Skjálfandann og í uppsveitum. Synirnir höfðu farið til Íslands að vinna, annar þeirra varð sjómaður og giftist ungri konu frá Húsavík, hinn fór í smiðsnám á Akureyri og giftist þar en gerðist síðar bóndi í Keldusveit, en eftir berklaveikindi gerðist smiður á Húsavík, en systir þeirra hafði oft verið hjá bróður sínum í sveit á sumrum og hafði gerst bóndakona á Melrakkasléttu.

Smámsaman gréru sár Trausta en höfuðáverkinn gerði það að verkum að suma daga átti hann erfitt með mál, aðra daga gat talað en hafði ekki vald á samhengi eða hvort hann mælti á Færeysku eða Íslensku eða um hvað, aðra daga gat hann rætt en eins og hugur hans væri tvo áratugi aftur á bak í tíma, fullviss að konan væri enn á lífi – hvenær hún kæmi í heimsókn – og hvenær hann fengi að sjá börnin sín.

Tíminn leið, Sóley sinnti honum af sinni alkunnu gætni og innsæi, og oft sat hún hjá honum á kvöldvaktinni eða næturvaktinni, heklaði eða las bækur af bókasafni um lækningar og sérstaklega lækningajurtir liðinna tíma. Það var eitthvað við Trausta, þegar hann gat gert sig skiljanlegan eða bara til hálfs, sem hún vildi heyra. Eins og hún væri komin aftur á Berustaði, eða á nágrannabæ þar sem bjó Haukur Magnússon, einsamall mest alla ævina og hugsaði um ærnar sínar, en hún hafði oft eytt tíma með honum í fjárhúsunum að ræða kindurnar og kynnast þeim.

Öðru hvoru, þessar fjórar eða fimm vikur, sem Trausti lá í aðhlynningu, leit við maður á hans aldri, sem einnig var frá Klaksvík, til að athuga hvernig hann hefði það. Bengt Bengtson hafði verið með þeim sem báru Trausta til sjúkralegu, og dvaldi þessar vikur hjá dóttur sinni og manni hennar í Þórshöfn, hann vildi ekki heim fara fyrr en ljóst væri með heilsu Trausta.

Smámsaman hjarnaði hann við, sárin gréru hið ytra, spelkaðir fæturnir og rifbeinin hófu að gróa, sársaukinn að minnka, höfuðsárið að jafna sig. Yfirlæknirinn vildi ekki sleppa honum of fljótt. Það er aldrei að vita hvernig fer með höfuðáverka, blæðing milli kúpu og heila, eða hristingur, getur haft dýpri afleiðingar sem síðan taka sig upp. Sóley vakti yfir honum af alúð, og sleppti jafnvel frívöktum til að geta sinnt honum. Það var eitthvað við gamla manninn sem hún vildi ekki missa af.

Eitt kvöldið var hann allsgáður og átti létt um mál. Sóley var einmitt á frívakt, en hafði staldrað við. Henni fannst ágætt, meðan hún syrgði samband sitt við Liselotte, að hafa einhvern til að hugsa um. Hún hafði séð til Liselotte þessar vikur, hún vissi að hún var búin að finna sér aðra ástkonu, hún hafði rekist á hana á gönguferð einhverju sinni þegar hún verslaði. Hún hafði sagt eitthvað við hana, í þá lund, svo lítið bar á og enginn sá til, „þú ert fljót til.“ Liselotte, hvort heldur til að særa eða af öðrum hvötum, svaraði til, „heldurðu að þú sért sú eina, heldurðu að ég hitti bara eina í einu.“

Henni sárnaði. Hvort satt væri. Hún sjálf var ekki þannig. Hún var kannski sódómíti í leynum, en hún kom fram við annað fólk af virðingu og að hitta fleiri í einu fannst henni dónaskapur við sjálfa sig og aðra. Hún vissi þó að ekki hugsa allir eins. Heldur betur. Hún ætti nú að vita það.

Hún saknaði samt ástkonu sinnar, og sárnaði þessi orðaskipti sem sviðu inn í hjartað hennar. Svo hún sat hjá Trausta Guðmundssyni, Íslenska sjómanninum frá Klaksvík í Færeyjum, sem átti uppkomin börn í Þingeyjarsýslum á Íslandi, heklaði og las. Og saknaði.

Þetta kvöld, gat Trausti rætt málin. Hann vissi hvar hann var, hann vissi að hún var hjúkrunarkonan hans, hann vissi hvaðan hann var, hver hann væri, og hvað hafði gerst. Hann hafði verið að klífa tindinn, því hann hafði trúað í mörg ár að hægt væri að finna inngang í fjallið, að leynifélag á Færeyjum varðveitti fjallið þannig að enginn finndi þennan inngang, að leyndardómurinn hefði að gera með hina fornu Faraóa, Egyptalands. Hann var ekki viss hver leyndardómurinn væri en hann hafði verið þess fullviss, eftir að hafa horft á fjallið árum saman yfir fjörðinn, eða af hafinu, eða lesið sér til um allt sem fannst í sagnageymd Færeyja tengdu fjallinu, að hann gæti fundið innganginn.

Það hafði verið dimmt um nóttina, því honum hafi lengst á fjallinu við leitina, en hann hafði fundið á sér að einhverjir aðrir voru á fjallinu og fullviss að honum hafi verið hrint. Hún hafði gaman af að heyra frásögur hans af leyndardómum varðandi Píramídafjöllin tvö á Færeyjum, það að helst vildi enginn skrifa um þau eða fjalla nánar um, eða komust ekki upp með að skrifa um, að þau tengdust þrjú til fjögur þúsund ára gömlum leyndardómi um Faraóana í Egyptalandi og vígslur þeirra, og að leynifélag, sem hefði verið í eyjunum allan þennan tíma varðveitti mikinn leyndardóm í fjallinu.

Auðvitað bara vitleysa, hugsaði Sóley, en hún hafði gaman af alls kyns sem fólk hugleiðir og ýmsu sem fólk lætur út úr sér. Hún hafði nú fengið ýmsa skammta þessi ár sín við hjúkrun, hjá öðrum sjúklingum, ýmist sem lágu sína síðustu legu eða jöfnuðu sig og komust aftur á fætur og vildu þá ekkert tjá sig um vitleysuna úr sjálfum sér þegar heilsunni hafði verið náð á ný.

Henni þótti vænt um þetta allt saman. Hitt er annað, að með morgninum tók sig upp heilablæðing hjá Trausta og með hádeginu var hann allur. Hún var innsæi sínu þakklát, að síðustu stundir hans, einmitt þegar hann var allsgáður, höfðu þau átt samræður og kynnst betur.

Hún saknaði hans, hún hafði hugsað sér að kynnast honum betur þegar hann væri orðinn fótafær og fluttur aftur heim til sín. En svona er lífið. Bengt Bengtson sá um að taka við málum Trausta, flytja hinn látna heim og skipuleggja þar útför. Hann vissi að Sóley hafði hugsað vel um gamla manninn, svo hann bauð henni að koma með til Klaksvíkur. Hún gæti fengið inni hjá annarri dóttur hans og dvalið í fáeina daga.

Henni leist vel á þetta, svo hún fylgdi Bengt og hinum látna, og kynntist þessari fallegu byggð við innfjörðinn, og leit hið glæsilega Píramídafjall augum. Vel gat hún séð fyrir sér þegar þokan kæmi inn af hafinu eða dalalæðurnar hjúpuðu fjallið, að skáldlegur hugur gæti séð ýmislegt fyrir sér, sem líklega ætti ekki aðra stoð en hugmyndaríka lund.

Hún fann þessa viku sem hún dvaldi í bænum að henni líkaði vel. Nærri höfninni var bakarí á danska mátann, þar sem hægt var að setjast við gluggann og fá sér franskt kaffi og danskt vínarbrauð og horfa á fjörðinn, fjallið, hafnarlífið, og hluta af bæjarnis. Henni leið þessa vikuna eins og einhver jarðtenging hefði átt sér stað í huganum hennar. Eins og volkið skip sem finnur lægi og varpar akkerum eftir storma hafsins. Þegar hún hélt heim á leið, daginn eftir útför Trausta, var eins og fæturnir væru þungir þegar hún gekk niður bryggjuna og um borð í bátinn sem ferjaði hana úr eynni yfir í hina, og vagninn sem þar var svo hún kæmist heim til Þórshafnar.

Hún sagði við sjálfa sig, að hún kæmi þangað aftur, og hún vissi nú að Færeyjar væru heimilið hennar, en hún ætlaði sér þó að heimsækja bæði Hjaltland og Orkneyjar. Hver veit, kannski færi hún til Skotlands einhverntíma að skoða bæði Glasgow og Edinborg. Kannski hún myndi finna vinnu þar í nokkur ár og safna sér fyrir húsi í Þórshöfn, eða í Klaksvík. Hver veit, kannski ljúft ævintýri í leyndum. Hver veit hvernig allt fer, ef einhver vissi hvernig örlögin gátu undið upp á sig.

Henni kom í huga samræður sem hún átti eitt sinn við ungan liðsforingja í Árósum. „Trúir þú á örlög“ spurði hún, „já“ svaraði hann, „en við rífumst.“ Svar hans hafði á þeim dögum átt vel við hugrenningar hennar sjálfrar.

Vorið leið og fram á sumar, hún átti tvær vikur í frí um sumarjafndægur, og ferðaðist til Leirvíkur á Hjaltlandi og var þar í tíu daga, gekk um bæinn, fékk far með ferjunum sem tengja eyjarnar saman, kynntist Hjaltlendingum og fann fólk sem enn kunnu fornu tunguna Norn (Norrænu), prófaði að læra eina vísu eða tvær, en hún hafði gott brageyra. Sumarið vissi á gott, hún vissi hver hún væri, eða næstum því, ekki alveg, kannski ekki enn, en næstum því.

Síðar þetta sumar var bankað hjá henni, hún átti frívakt þennan dag, og var að lesa skáldsögu eftir Íslending sem bjó í Kaupmannahöfn og skrifaði allt sitt á dönsku. Bengt Bengtson frá Klaksvík stóð við dyrnar, hvort hann sækti illa að eða vel. Hún bauð honum til stofu sinnar, en hún leigði nú tvö herbergi, stofu og svefnstofu, önnur þeirra rúmgóð með eldunarkytru, og afsíðis var einka snyrting. Framfarir tuttugustu aldar virtust ekkert hægja á sér. Útvarpssendingar voru nú allsstaðar í hinum Vestræna heimi, hún átti þó ekki viðtæki enn, en það var komin raflýsing og hægt að lesa fram á kvöld eða hekla eða prjóna.

Hún bauð Bengt kaffi, þau ræddu um minningu Trausta, um Klaksvík, um hvernig vinnan gengi á hjúkrunarheimilinu sem fljótt myndi verða sjúkrahús ef svo færi sem á horfði, þriðji læknirinn kominn til starfa og hjúkrunarkonum fjölgað úr fimm í sjö. Hún sagði honum ferðina til Hjaltlands, og var hann ánægður með frásöguna, hafði sjálfur farið þangað stöku sinnum og spurði hvort hún hefði heimsótt þennan staðinn eða hinn, sem hann kannaðist við.

Hún hafði snemma skilið, þá um veturinn, að Bengt var ekki maður sem lætur uppi hvað honum er í hug, nema fyrst hafa kannað hugarlandið sem fyrir liggur. Hún var sjálf dálítið þannig og líkaði það vel. Ekkert lægi jú á. Hann tók sér því góðan tíma að ræða eitt og annað, engin óþolinmæði, hvorki hjá honum né henni. Allt yrði ljóst að lokum.

Hann vildi bjóða henni starf. Hann var sjálfur í bæjarráði Klaksvíkur, átti auk þess eigin rekstur sem þjónaði útgerðum bæjarins með allskyns tæknivörur. Hann vildi ekki ráða hana til sín, heldur til bæjarlæknisins. Það væri aðeins einn læknir í bænum og hefði ekki haft hjúkrunarkonu, en öðru hvoru ráðið aðhlynningu frá Kaupmannahöfn, og þá helst yfir veturinn og aldrei lengur en tvo vetur í senn. Bengt hefði kannað málið hjá bæjarráði og rætt við lækninn og afráðið var að fastráða hjúkrunarkonu sem einnig væri ljósmóðir.

Henni brá nokkuð við þetta. Enginn vissi hvaða taugar hún hafði myndað til bæjarins þegar hún hafði komið þangað í vetrarlok. Hún horfði á hann, gætti svipbrigða sinna vel, hann horfði á móti, fékk sér sopa úr kaffibollanum. Sumarsólin skein, ský á sjóndeildarhringnum, kannski myndi rigna með kvöldinu.

Já, sagði hún, eins flatt og hún réði við sjálfa sig. Hjartað hamaðist undir skyrtunni. Hún var í nýlegri dragt með skyrtu, hún vissi að ef hann liti á barminn sæi hann líklega hvernig hjartað hamaðist undir brjóstum hennar, en hún vissi að hann myndi ekki skoða kvenleika hennar. Hann væri ekki maður sem missti stjórn á sér, ekki svo klaufalega.

Hann lagði frá sér bollann. Brosti, glaðlega, og sagði, „nú fórstu alveg með mig. Ég hélt að þú ætlaðir að neita. En það er allt til reiðu ef þú segðir já, ég samdi við erfðabú Trausta í sumar, ef þú vilt flytja til okkar og ef þér líkar eftir fyrsta árið, þá getur þú fengið húsið leigt og eftir það – ef þú vilt flytja í bæinn okkar – færðu húsið keypt á góðum kjörum.“

Hún þekkti húsið, það var snoturt og vel hirt, með litlum garði, þröngt fyrir hjón með þrjú börn en rúmgott fyrir unga heimskonu á fyrri hluta tæknialdar. Hún hlakkaði til. Hún gat ekki beðið með að flytja. Hún samdi við hjúkrunarhælið, fékk sig lausa með haustinu, fór um sumarið tvennar ferðir með hluta af munum sínum, að koma þeim fyrir, skoða húsið, prófa að sofa þar, kynnast bænum.

Um haustið var hún flutt og orðin hjúkrunarkona og ljósmóðir hjá lækni staðarins. Hafi hún haft ánægju af í Þórshöfn að víkka út reynslu sína við hjúkrun, jókst nú við. Um veturinn leið tíminn ógnar hratt, og þegar að því kom sumarið eftir, að ræða fastráðningu, og ræða um kaup á húsinu, gekk það allt vel, eða jafn vel og hlutir geta gengið þegar menn á borð við Bengt Bengtson, gerist Avuncular sem greiðir úr flækjunum áður en þær myndast.

Sem fyrr segir, gerðist þrennt markvert veturinn áður og um vorið, ástarævintýrið sem risti djúpt sár í sálina, skrítinn maður úr heimalandinu sem svo gott sem deyr í fanginu á henni en gefur henni hlutdeild í nýjum leyndardóm, og henni er svo gott sem snarað þangað sem hún átti alls ekki von á, og það er fyrir henni „alla leiðina heim.“

Það versta við þessar miklu breytingar, var líklega það að hún myndi ekki lengur sjá og hitta besta vin sinn, Margarete „Mags“ svo til daglega, en þær vissu að þær myndu heimsækja hvor aðra þegar hægt væri. Auk þess átti Mags von á sínu fyrsta þá um sumarið, svo hún hefði minni tíma fyrir stelpuflandur eins og þær kölluðu það, en Sóley hafði hlakkað til þegar að því kæmi að taka á móti og fylgjast með fyrstu sporin.

Hvað um það, úr því yrði leyst. Þannig leið árið, hún skrapp til Þórshafnar þegar hún gat, að heimsækja vinkonu sína, og fylgjast með hvernig fram yndi, og tvisvar kom Mags í heimsókn ásamt Lars, og viti menn, litla húsið hafði jú tvenn svefnherbergi. Hún réði sér ekki, hún gat fengið gesti! Hún gæti skrifað heim, boðið Páli og Aðalheiði „Heiðu“ að koma og dvelja, myndu þau vilja ferðast alla leið til Færeyja, hún gæti fengið „yngsta bróður“ sinn í heimsókn. Hvernig átti að vinna úr öllum þessum nýju opnunum, sinna sérlyndu örlaga!

Hún fór oft á bakaríiskaffihúsið sem horfði yfir höfnina, fékk sér franskt kaffi og danskt vínarbrauð og horfið á það sem Þórbergur Þórðarson uppnefndi „nið aldanna.“ Rúmur áratugur, var liðinn frá töðugjöldunum sem öllu breyttu og hún hafði nýlega lestið útkomna bók Þórbergs, Bréf til Láru, sem Margrét elsta systir hennar sendi henni. Hún fann tón í þessari ádeilu sem henni fannst eiga við fjörðinn, fjallið, og allt hitt.

Stöku sinnum mætti gamli maðurinn, Bengt, velgjörðamaður hennar með henni við borðið við gluggann, og horfði með henni á öldurnar, hafið og fjallið við himininn. Skrifstofa hans var nærri bakaríinu og hann sá stundum ef hún sat við gluggann og notaði tækifærið. Þau ræddu bæjarlífið, hvað væri í fréttum af dætrum hans og barnabörnum, en hann átti fjórar uppkomnar dætur sem allar voru mæður, hvort hún hefði frétt af fólkinu sínu á Íslandi, hvort Mags vinkonu hennar í Þórshöfn heilsaðist vel og ungu barni hennar.

Smámsaman kynntust þau betur, hún hafði gætt sín þessa mánuði sem hún bjó í bænum. Hún fór af hófsemd út í það félagslíf sem dafnaði í þessum fallega bæ við höfnina, við innfjörðinn. Ef hún færi ógætilega gæti kvisast eitthvað út sem gæti eyðilagt starf hennar og aðstæður hraðar en vetrarstormur. Kannski hafði gerst eitt lítið ævintýr, kannski ekki, ef svo var þá mjög hljóðlegt og mjög gætilegt, og ekki langlíft. Hún vildi búa hér, hún vildi þá vini sem hún var að eignast hér, og henni þótti vænt um velgjörðamann sinn og álit hans á henni. Hún vildi ekki stugga við neinu hér.

Henni þótti vænt um þá vináttu sem myndast með hægð, athygli og gaumgæfni, henni hafði skilst af reynslu að sumt fólk sem dýrmætt er að kynnast, hleypir fáum í gættina, en ef það gerir það, opnar hana til hálfs, og næstu þar á eftir fyrst til hálfs, en ef þú færð að gægjast inn, lærir þú margt, um lífið, um tilveruna, um sjálfa þig, og um framvindu okkar allra. Hvað gott er og hvað vont er, án orða.

Einn daginn spyr Bengt hana, hvort Trausti hafi rætt við hana um slysið sem sendi hann á sjúkrahúsið og dró hann til dauða. Slysið sem kom henni hingað, í húsið hans, við fjörðinn. Að drekka kaffi með einum af öldungum staðarins. Nei, svaraði Sóley, hún vildi ekki ræða einhverjar dularfullar óráðs kenningar, hvað svo sem sjúklingur hefði rætt við hana, með óráði eða ekki, var þess sjúklíngs eingöngu og alls ekki tilefni til að ræða um við aðra.

Bengt trúði henni ekki, hún sá það í augum hans, en hann lét það niður falla. Vikur liðu, að hann spurði hana aftur, en þau hittust að jafnaði í hverri viku og ræddu saman um himininn og þorpslífið, yfir frönsku kaffi. Hún vissi vel að hann myndi spyrja aftur, hann vissi vel að hún vissi það, og þau vissu bæði, að einn daginn segði hún já við spurningu hans.

Ár leið og aftur varð hún ástfangin, og aftur var hún miður sín. Með Tove var hún miður sín því Tove vildi verða „gift almennileg kona“ og vildi ekki strjúka með henni til Berlínar eða London. Með Liselotte varð hún miður sín því sú var gift og ætlaði sér að vera það áfram og geyma Sóleyju sem hjákonu, og kannski hafa aðrar þar til hliðar, og allt í flækju. En með Astrid, hvernig átti hún að leysa vandamál á borð við Astrid?

Astrid var fædd og uppalin í þorpinu, rétt rúmlega tvítug, þær kynntust einmitt í bakaríinu, en smámsaman, því Astrid afgreiddi þar á daginn, og þó stundum hafi augu mætt augum og stundum virst eins og hin horfði á hina svo lítið bæri á og enginn tæki eftir, var hún ekki viss, lengi lengi. Einnig hafði hún verið svo ákveðin í að halda aftur af þessari hvöt sinni að hún leyfði ekki huganum að hugleiða nánar, nema stöku sinnum í kvöldhúmi.

Að þær voru eitt sinni staddar á sjómannadansleik, að þær höfðu eins og af tilviljun yfirgefið samkomuna á sama tíma, að þær höfðu eins og af tilviljun verið samferða í sumarnóttinni, gengið fáfarna leið þar sem enginn sá til þeirra, leiðst, stöðvað, horfst í augu, varir mæst, að Astrid hafði komið með henni heim, en laumast út tímanlega og heim til sín áður en bærinn vaknaði. Að þær höfðu átt fleiri leynifundi, að ástin var að vakna með þeim báðum, að þær ræddu það ekki en vissu það báðar, en hvað næst, hvað ef eitthvað kæmist upp, hvað ef einhver sæi til þeirra, hvað ef, hvað ef, hvað ef.

Hún hafði sannfært sjálfa sig um að „hún væri komin heim“ og að hér gæti hún haft hemil á hjarta sínu og þrám sínum, agað sjálfa sig, tamið huga sinn. Hún var þess viss að þau tækfæri til ævintýra sem geta þvælst fyrir fótmálinu yrðu fá og auðveldlega umflúin. Að hún gæti haft stjórn á sjálfri sér og endur mótað sig. Að hún fór á stöku dansleiki, var eðlilegt, hún vildi jú finna sér mann eins og eðlileg kona og hélt enn í þá draumsýn sem búast má við fyrir unga konu í blóma lífsins, að vera eins og ætlast væri til af menningu hennar, og af henni sjálfri.

Hún hitti velgjörða mann sinn öðru hvoru á bakaríinu og kynntist þessum djúpvitra öldungi betur og betur, hún kynntist bænum betur með hverjum mánuðinum. Hún hafði ánægju af blæ duldrar móttöku sem gerist í öllum bæjum, sem hún hafði kynnst fyrst í Árósum, síðar í Þórshöfn og að hluta bæði á Króknum og Hofsósi. Hvert bæjarfélag og hver sveit hefur sinn blæ, þeirrar nátturu hvenær aðkomu maður hættir að vera aðkomu maður og er meðtekinn sem „aðfluttur“ frekar en „ókunnugur sem býr hér“ og út í að verða hluti bæjarlífsins og sveitarinnar.

Rétt eins og sá blær sem hún naut svo vel í góðum kynnum við vandað fólk, kynnist þú anda menningar hvers staðar með sama hætti, og þar gildir virðing, tími, þolinmæði og dómgreind. Hún fann þegar þetta gerðist í Klaksvík og hún skelfdist að missa það, hún vildi eiga hér heima. Það var að rætast sem Jón vinur hennar og barnsfaðir hafði lýst á sínum tíma.

Þannig leið sumarið og fram á haust, að tvennt gerðist. Astrid flutti til hennar, einn góðan sunnudag birtist hún á tröppunum. Bakaríið er lokað á sunnudögum, hjúkrunarkona bæjarlæknisins er í fríi á sunnudögum. Bærinn fer í kirkju, sumir í göngu ferð, Færeyskur bær á þriðja áratug tuttugustu aldar, fer eftir sínum hefðum og sínum reglum. Þú skreppur ekki út í sjoppu að kaupa flögur eins og gert verður á næstu öld, eða tékkar á fréttum í snjallsíma, ef þú ert þannig í sveit sett, áttu útvarpsviðtæki. Sóley átti nýlegt útvarpsviðtæki og hún elskaði að nota það.

Astrid bankaði, og gekk inn. Þú læsir ekki útihurðum í þessum bæ á þeirri öld. Hún gekk inn með tvær töskur, horfði á Sóleyju sína, sem horfði til baka. Augljóst var að stúlkan var flutt inn, óþarfi að setja það í orð. Hitt var ekki augljóst, hvaða afleiðingar það hefði.

Sóley var sem frosin, þar sem hún hafði setið við eldhúsgluggann sinn og horft á þorpið og fjörðinn, drukkið heilsute úr fjallagrösum sem hún hafði sjálf tínt, og lagað eftir fornri uppskrift. Hún var á léttu hálfpilsi og ermalausum bol, sólin glitraði í ljósu hárinu og grænblá augun dökknuðu þar sem hún horfði á Astrid, sem var með svart hárið bundið í tagl, íklædd svörtum flauelisbuxum upp á danska tísku og í fallegri azúrblárri mussu sem hún hafði saumað sjálf.

Astrid settist við borðið, innti hvort hún fengi kaffi. Sóley sat enn sem frosin. Astrid stóð þá upp og segir á dönsku frekar en færeysku, "þar sem ég er húsmóðirin hér, helli ég bara uppá handa mér sjálf, og elskunni minni." Smástund leið, kaffið var trekkt, smákökur fundnar í tinboxi og bornar fram. Þær sátu þarna smástund, smámsaman slakaði Sóley á, en hún var skelfingu lostin.

Astrid tók í báðar hendur hennar, þegar þvær voru búnar að fá sér kaffisopa og horfði djúpt í augu hennar. Þær skiptust á orðum, viltu mig, eða viltu mig ekki, já ég vil þig en veistu hvaða afleiðingar það hefur, þannig fóru þær fram og aftur. Allt kom fyrir ekki, og Sóley vissi að Astrid færi ekki að heiman, hún var flutt inn, komin til að vera. Hún vissi að þær vildu það báðar, að það yrði að taka því hvaða afleiðingar það hefði.

Smámsaman slakaði hún á, og gerði eins og ástvina hennar vildi, eyddi deginum eins og hún hefði gert annars. Um kvöldið elduðu þær saman, og þegar leið á kvöldið, voru þær saman eins og ekkert væri sjálfsagðara. Sóley var enn full kvíða og vanmáttar en eftir því sem dagurinn leið, varð samvera þeirra óþvingaðri, þegar þær höfðu gengið frá eftir kvöldverðinn, sátu þær saman í sófa, önnur með höfuð á öxl hinnar, þar til leið að háttatíma, og morguninn eftir klæddu þær sig saman, drukku morgunkaffi saman, og héldu hvor til sinnar vinnu.

Líðan Sóleyjar var eins flókin og verða vill, í fyrsta sinn á ævinni átti hún daglegt líf með elskunni sinni, eins og ekkert væri sjálfsagðara og það svo allir í bæum gætu séð, og í hina röndina skelfingu lostin. Astrid lét á engu bera, hún var búin að ákveða hvað hún vildi, hún var flutt inn, hún var nú húsfreyja konunnar sinnar og henni varð ekki bifað, kæmu stormar og él, kæmu skúrir eða blær, skipti hana engu. Að því er virtist.

Í það minnsta sló vissa Astrid, nokkuð á kvíða Sóleyjar.

Vikan leið, ef læknirinn yfirmaður hennar vissi eða vissi ekki, eða hafði skoðanir, eða engar, þá lét hann á engu bera. Þeir sem þurftu aðhlynningu á læknisstofunni, sama sagan. Enginn sagði neitt. Ein og ein húsfreyja í plássinu sleppti því að heilsa, eða heilsaði kuldalega, ef hún mætti einhverrni á göngu, sumir herrar og sjómenn bæjarins lyftu e.t.v. einni augabrú eða svo, eða færðu annað munnvikið millimeter upp eða niður.

Enginn sagði neitt, hún var ekki viss hvort þessar litlu breytingar væru ímyndun hennar sjálfrar eða væru það ekki. Í miðri vikunni fékk hún sér franskt kaffi í bakaríinu eins og hún var vön og Bengt kom og þau ræddu saman um himininn og þorpslífið eins og þau voru vön, en hún varð einskis vör.

Önnur vika leið og hún var enn skelfingu lostin, og jú hún þóttist viss um að sumar húsfreyjur bæjarins væru kuldalegri í sinn garð, og sumir karlmenn bæjarins hikandi, en enginn sagði neitt og engum var sagt upp í starfi. Astrid mætti í vinnu sína í bakaríinu á morgnana og afgreiddi lipurlega eins og hún var vön, Sóley mætti í sína vinnu hjá lækninum og átti stöku viðtöl við þungaðar konur í bænum og firðinum eins og hún var vön. Báðar bjuggu þær sínu heimilislífi eftir vinnu, elduðu saman, gengu frá saman. Sóley fór í sínar gönguferðir í náttúrunni eins og hún var vön, stundum kom Astrid með og stundum ekki, en eins og hún sagði kankvís þegar hún vildi ekki með, „æi farðu bara, mér finnst gott að vera ein með sjálfri mér. Fá smá frí frá frúnni.“

Þær voru báðar þannig gerðar, að dýpri tilfinningar og sálrænar hugarflækur, þarf ekki að ræða nema sjaldan og þá sem styðst. Þær voru báðar sjálfri sér nógar hvað viðkemur hugarflækjum og þeim þótti báðum gott að vera í nærveru þar sem ekki þurfti að ræða djúp og flókin mál. Þannig séð, þó Sóley væri enn að jafna sig, eftir stuðandi undrunina – eða áfallið – þegar Astrid flutti inn án þess að það hefði verið rætt eða svo mikið sem komið til tals að samband þeirra væri alvarlegs eðlis, hafði hvorug þeirra rætt þetta nánar, umfram togstreitu fyrsta dagsins. Báðar nutu þess að eiga sitt daglega líf saman og komast upp með það.

Þar kom þó á ljúfum haustdegi, að Sóley gat ekki orða bundist, en þann dag hafði Astrid komið með henni í góða útivist fram með firði. Þær sátu í grasbala ofan við fjöruna, horfðu á fuglana og nutu haust sólarinnar, fengu sér gott nesti og nutu dagsins. Sóley spurði, hvernig Astrid vissi, þá um sumarið, að þær kæmust upp með að hún flytti inn, að þær gætu búið saman sem ástfangið par fyrir allra augum eins og ekkert væri.

Hún var ekki viss hvort Astrid myndi svara þessu eða hvernig. Hún var ekki þannig gerð að hún kærði sig um að útskýra sjálfa sig eða ræða flókna og viðkvæma hluti. En hvernig var annað hægt í þessari fallegu útivist við fjörðinn en að svara elskunni sinni um veigamesta atburð í tilveru þeirra beggja.

„Þetta er bæði flókið og einfalt,“ sagði Astrid. „Í fyrsta lagi vita allir hvernig ég er, bæði að ég er Lesbía og einnig að ég geri það sem mér sýnist og að það er tilgangslaust að sniðganga mig eða leggja mig í einelti. Ég vissi að bæjarlífið myndi sætta sig við að ég flytti inn til þín og ég var tilbúin í að ganga í málin ef það myndi bitna á þér.“ Svo sagði hún hlæjandi, „það þurfti einhver að taka af skarið með þig, sætust.“

Sóley hafði vissulega heyrt orðið Lesbía áður en hún sjálf notaði orðin sódómíti þó að það væri frekar notað um karla sem elska karla og „Sapphic“ eða „Sapphist“ eins og hún hafði lesið um í ritunum sem hún og Tove höfðu fundið. Hún vissi ekki hvort henni líkaði þetta orð, eða stimpillinn.

Hún væri kona, hún væri auk þess hjúkrunarkona og ljósmóðir, sem hefði girndarþrá til kvenna, og þú hún hafi verið með karlmanni og þó hún hefði átt barn, þá væri hún ekki einhver Lesbía eða eitthvað annað, hún væri kona, og með tiltekið vandamál.

Astrid var á öðru máli. Hún hafði ekki búið í stórborg eða lesið heimsbókmenntir. Hún væri bara ung dama í Klaksvík, sem væri Lesbía. Hún hafði lært þetta orð einhvers staðar, man ekki hvar, og henni fannst það bara fínt. Hún væri kona sem elskar konur, og slíkar konur væru Lesbíur.

Hún tuskaðist smávegis á við Sóleyju í grasinu, og ögraði henni hálf hlæjandi, „þú ert lesbía, lesbía lesbía, og ÉG Á ÞIG, og ég er líka lesbía og ég elska þig og þú elskar mig.“

Þær sátu smástund og kláruðu nestið. Sóley sagði henni að hún hefði ekki vitað hvernig hún væri fyrr en námsárin í Árósum, hún hefði barist gegn því mest allan tímann. Hún hefði í raun verið skelfingu lostin síðan þá hvort það kæmist upp. Enginn vissi þetta – meðal eðlilegs fólks – nema Margarete vinkona hennar í Þórshöfn.

Astrid skildi hana vel, sagði hún, líklega væri óvíst hvort hún hefði fengið að klára námið sitt ef fólk hefði vitað af þessu. Eins hvort hún hefði fengið störfin, fyrst í Þórshöfn og síðan í Klaksvík, ef þetta væri vitað. En það ætti ekki lengur við, ekki eftir að þær kynntust.

„Þú ert komin með starf, þú átt þitt eigið hús, það vita allir hver þú ert og að þú ert ekki að kynnast manni eða sýna mönnum áhuga, og eftir að við kysstumst fyrst vissu allir að við værum að hittast, og því skiptir þetta engu máli lengur.“

Þó svona einföldun væri fín út af fyrir sig, þá var þetta líklega of mikil einföldun fyrir Sóleyju Pálsdóttur, heimskonu, og lesbíska móður, fyrri hluta tuttugustu aldar, norðan úr Skagafirði. Hún sem heyrt hafði tvisvar eða þrisvar sagt við sig „þú hugsar of mikið.“

Á heimleiðinni útskýrði Astrid nánar hvers vegna þetta væri svona einfalt. „Eins og þú veist er elsti bróðir minn guðfræðingur og þjónar sem prestur í Vejle í Danmörku. Hann útskýrði fyrir mér þegar ég var ellefu eða tólf ára, að reglurnar í Biblíunni eru misskildar hvað okkur varðar.“

Sóley vissi vel af reglum ritninganna, hún hafði vissulega heyrt þær í sínu uppeldi og heyrt í messugjörðum. Satt að segja hafði hún orðið afhuga kirkjusókn vegna þessa, þegar tilhneigingar hennar vöknuðu. Henni fannst erfitt að vega salt þarna á milli og fórnaði því öðru fyrir hitt. Hún vissi hins vegar að Astrid var trúuð og las oft í Biblíunni, sérsaklega Sálmana og Orðskviðina. Hún skildi hins vegar ekki hvernig hún samræmdi sig við bók sem fordæmdi hana, en hafði ekki fundið í sér til að spyrja um það.

Satt að segja fannst henni að Guð hlyti að vera grunnhygginn, að skapa þær svona, og banna þeim að vera þær sjálfar. Astrid var á öðru máli og að venju í skýrum en þaulhugsuðum einfaldleika, að „menn gera Guð grunnhygginn með reglum og kreddum, og það væri manns sjálfs, í samtali við Guð einan, að vinna hugvitsamlega úr flækjum lífs og örlaga. Þetta væri einfalt, lífið væri einfalt og gott, en maður þyrfti að hafa vit á því.“

„Reglurnar snúast um fortælingar, sem á ensku er Persuasion, að sá sem hneigist til ásta við sama kyn, á ekki að tæla ístöðulausa, eða stunda lauslæti, eða eitthvert annað siðleysi s.s. óhóflega mikið af dansleikjum og samkvæmum og þá sérstaklega þar sem slíkir koma saman. Að þær snúast um að laga sig að venjulegu lífi á óvenjulegan hátt.“

Sóley var ekki alveg að sjá fyrir sér hvað átt væri við, en hún skildi þó hluta þess. Hún vissi vel eftir búsetuna í Árósum og af samskiptum sínum við fólk þar, sem búið hafði í stórborgum Evrópu, að mikið er um að sódómítar stundi alls kyns siðleysi af því tagi sem Astrid nefndi, lauslæti, framhjáhöld, tæla þá sem ekki eru vissi um hneigðir sínar út í samræði með eigin kyni, og að alls kyns samkvæmisstaðir eru starfræktir fyrir slíkt, kynsvall í hópum. Um tíma hafði París verið fræg borg fyrir slíkan lifnað og Berlín eftirstríðsáranna var einmitt fræg fyrir slíkan lauslætislifnað um þessar mundir.

Það sem hún hins vegar skildi ekki, var hvernig Astrid sem ekki las neinar bókmenntir, hefur ekkert ferðast og er rétt rúmlega tvítug, vissi svo mikið um þetta. Astrid gat ekki svarað því, nema að hún tæki eftir þegar rætt er um hluti, hafi blaðið í erlendum tímaritum á bóksafninu og tekið eftir ýmsu, og síðan bætti hún við, hlæjandi, „þú ert ekki fyrsta konan mín, og þú skalt ekki halda að engin hafi sagt mér neitt. Maður gerir fleira en kyssast og snertast, er það ekki!“

Aftur þessi einfaldleiki sem Sóley var svo hrifin af. „Svo hvað áttu við með að lifa eðlilegu lífi á óvenjulegan hátt,“ spurði hún.

„Það er eins með venjulegt fólk og okkur, að Biblían mælist til þess að karlar og konur eigi ekkert kynlíf fyrr en þau gifta sig, og megi ekki skilja eftir það, að þau lifi hófsömu eða Modest lífi. Þannig eru reglurnar jafn strangar fyrir venjulega fólkið eins og fyrir okkur. Að við finnum í rólegheitunum einhvern sem við elskum og lifum síðan hófsömu lífi eftir það og tælum engan til neins. Sömu reglur eiga í raun við alla, að lifa í hófsemd og virðingu, og guðrækni.“

Að hætti Astrid var þetta frekar langt svar, en samt jafn einfalt og laggott eins og henni einni var lagið, að hugsa djúpt en laggott, leysa það með einföldum skýrum orðum, og lifa síðan glaðbeittu lífi lifandi, en af viti.

Hún tók í hönd Sóleyjar, þar sem þær gengu heim á leið í kvöldsólinni, og bætti við. „Ég er búin að finna konuna mína, og vil eiga hana og að hún vilji eiga mig, og ég vil að fólkið mitt, hér í þorpinu, eða fólkið þitt heima á Íslandi, og sonur þinn, vilji það einnig. Ég vil ekki að neinn sætti sig við neitt, ég vil að þau vilji það sem ég vil, og þú vilt, og í sátt við Guð og menn.“

Sóley leit í augu hennar, fann fyrir hönd hennar í sinni, og vissi hver hún væri, hvað hún vildi, og að örlögin voru ágæt, sérstaklega þegar þau vissu betur en hún sjálf. Þær gengu áfram heim á leið. Hún fann hvernig konan hennar var hennar, og hún sjálf hennar, en forvitni hennar var vakin. Hún hafði undanfarin ár verið svo upptekin af sinni eigin innri baráttu við sjálfa sig, að hún gleymdi innra samlífi annarra við sjálfa sig, hvað þá þeirra kvenna sem hún hafði kynst og höfðu sömu kenndir og hún sjálf. Hún hafði aldrei kynnst hjá neinum öðrum, þeim skýra einfaldleika og lífssýn sem Astrid hjúpaði með daglegu lífi sínu og kynnum. Hana langaði að vita hvernig hún uppgötvaði sjálfa sig, hvers vegna hún var fyrsta „lesbían“ sem hún kynntist, sem var ekki í neinni innri togstreitu varðandi sjálfa sig.

Svo hún spurði og þær ræddu nánar. Eins og venjulega var þetta einfalt og skýrt. Astrid hafði vitað frá því hún var fyrst skotin í leiksystur sinni, fimm eða sex ára gömul, hvers kyns væri. Hún hafði jafnvel rætt það við móður sína, en móðirin brást ekki við með skömmum eða neinu, öðru en „sumar stúlkur eru þannig, það annað hvort venst af þér eða ekki.“ Hún hafði aftur reynt að ræða þetta við móður sína í kringum tíu ára aldurinn, en svarið var hið sama og áður, „þú annaðhvort venur þig af þessu eða lifir með því.“

Þá hafði hún einu eða tveim árum síðar rætt þetta við bróður sinn, sem var trúaður eins og hún sjálf og þá þegar kominn í latínunám og stefndi á guðfræðinám, en hann útskýrði þetta með fortælingar.

„Úskýring Palle, var svo einföld og eðlileg, að ég hugsaði ekkert meira um þetta. Ég væri bara eins og Guð vildi hafa mig og kúnstin væri sú sem mamma sagði, að annað hvort vendi ég mig af því eða lærði að lifa með því.“ Bætti Astrid við, og hló.

Síðan leit hún á Sóley og hló aftur, blíðlega. Og þær leiddust heim. Þegar heim var komið elduðu þær saman, og í tilefni tilfinningaþrungins en ánægjuríks dagsins, ákvaðu að opna franskt rauðvín sem þær höfðu eignast um sumarið. Nándin var blíð og notaleg, þær höfðu brotið undir sig nýtt land í samlífi sínu.

Þegar leið á kvöldið ræddu þær fasta liði eins og venjulega, lífið í þorpinu, sína daglegu reynslu, smávegis um fréttir úr héraðinu og fólkið sem þær þekktu og annað smávægilegt, hvort þær ættu að ferðast, kannski á baðstrendur í Frakklandi, eða láta hendingu ráða, eða fara til Íslands og vera þar í fáeinar vikur. Astrid sem ekki var vön að fara djúpt í eigin innri vangaveltur, hafði losað dálítið um, eftir djúpar og einlægar samræður dagsins.

„Hefurðu tekið eftir að ég er eins soldið eins og karlinn á að vera.“ Sóley brosti, þær voru þó ekki á þeim buxunum að fara í slíkan samanburð, eða hefðir og hlutverk. Þær voru sammála um að þær væru tvær ungar konur sem elskuðu hvor aðra. En hún skildi hvað Astrid átti við, og kinkaði kolli. Síðan bætti Astrid við, „sko, þú minnist stundum á konur sem þú hefur kynnst, en ég tala ekkert um þær sem ég hef kynnst. Ég veit að þetta er dálítið þannig í samböndum karla og kvenna, eða hjá venjulega fólkinu.“ „Hvernig veistu það ef þú hefur aldrei verið með karlmanni“, spurði þá Sóley, og Astrid bætti við „ég á vinkonur hér í þorpinu, og ég tek eftir, þú hlýtur að hafa tekið eftir þessu sama.“ Jú vissulega hafði Sóley tekið eftir, að hún átti til að rifja upp liðin samskipti, jú, Astrid gerði lítið af því, var meira í stað og stund, að hún ræddi ekki um liðin sambönd. Þetta hafði Sóley sett á sama stað og það að Astrid ræddi lítið sínar innri hugleiðingar og tilfinningar, í það minnsta forðaðist hún flóknar samræður um slíkt.

Auðvitað vildi Sóley vita meira, en hún var ekki spurul, hún hafði vanið sig á, svipað og í samræðum sínum við Bengt Bengtson, að þú færð meira að vita ef þú bíður og tekur eftir, en ef þú ert með óþarfa forvitni. Greinilega var sú stund komin, hjá Astrid, að Sóley fengi að vita eitthvað í þessa veruna, hvernig uppgötvaði hún sjálfa sig og hvernig það þróaðist.

„Þegar ég fermdist, var ég búin að ræða við mömmu, tvisvar eða þrisvar, einu sinni eða tvisvar við Palle, bróður minn, og ég var búin að vita síðan ég var smástelpa. Svo ég reyndi við allar fermingarsystur mínar, en við vorum sex sem fermdust á sama tíma, og mér tókst að kyssa þær allar nema eina.“

Astrid glotti kvikyndislega. Greinilega hafði hún verið snjöll í að tæla fermingarsystur sínar til að kyssast og snertast, útsmogin og áræðin. Síðan bætti hún við, „það varð allt vitlaust þegar þetta komst upp, ég var kölluð alls kyns ónefnum, að djöfullin hefði tekið sér bólfestu í mér.“ Síðan bætti hún við, „en presturinn gat ekki neitað mér um að fermast, því dóttir hans var ein þessara stúlkna og hún vildi meira og helst miklu meira og ég hótaði að láta alla vita það.“ Svo hló hún innilega.

Þannig höfðu presthjónin og einnig foreldrar Astrid afráðið að láta eins og á engu bæri og sjá til hvort fleiri í söfnuðinum myndu segja eitthvað. Ein og ein af betri frúm bæjarins tóku prestinn á eintal, eftir að þær höfðu frétt eitthvað, þær vildu að stúlkunni væri neitað um fermingu. Eins og Astrid sagði „þegar þrettán ára stúlka tælir fimm fermingarsystur sínar og skammast sín ekki fyrir það, er eftir því tekið, en það er ekki víst að of margir muni ræða það“ og svo hló hún og kláraði „því það eru leyndarmál á öðru hvoru heimili og fólk veit að best er að ræða um veður og fiskerí. Því ef byrjað er að ræða flókin leyndarmál, gætu leyndarmál þessara sömu fordómapúka dúkkað upp.“

Svo bætti Astrid við, og kláraði vínglasið og færði sig nær stúlkunni sinni, „síðan kynntist ég þér, ástin mín, og þar sem allir vissu hvernig ég er, þá vissu allir hvernig þú ert, og nú eru allir sáttir, sérstaklega við tvær og nú förum við í háttinn“ sagði hún og stóð upp.

„Eitthvað hefur nú gerst frá því þú varst fermingarstúlka og ný hjúkka kom í bæinn“ spurði Sóley, en Astrid var búin að ræða nóg af nándarflækjum þetta sumarið, svo hún bætti við meðan þær háttuðu sig „kannski eitt eða tvö ástarævintýri eða eina eða tvær giftar frúr í bænum, en hver er að telja.“

Morguninn eftir, leit Astrid á Sóleyju sína, þar sem þær sátu með kaffisopann sinn áður en þær héldu í vinnu, „jú það er eitt sem má kannski segja frá.“ Sóley leit upp, hafði verið annars hugar, margt að gera, tvær sængurkonur sem vitja þyrfti, „dóttir bakarans gæti verið kona með leyndarmál. Þess vegna vissi ég að ég myndi ekki missa vinnuna þegar ég flutti til þín. Ég veit svo mörg leyndarmál hér í bænum, að það getur verið hættulegt fyrir sumar fjölskyldur að vera með vesen.“

Svo brosti Astrid sínu blíðasta, frökk og lífsglöð í skýrum einfaldleika sínum. En dagurinn á undan, með samræðum við hafiðog þessi morgunn, voru það sem Sóley þurfti, styrkur vinu hennar og skýrleiki, kjarkur hennar og áræðni, hafði hjálpað henni mikið þetta afdrifaríka sumar. Kannski var það rétt sem Jón sagði, um hana, nema hvað hann gleymdi að minna á að stundum þurfti hún að hugsa dálítið um hlutina fyrst.

Vikurnar liðu, fátt gerðist markvert. Stóri atburður sumarsins, þegar þær hófu sambúð sína, hvernig bæjarlífið sætti sig við það, hvernig þær sjálfar höfðu rætt málin. Hvernig Sóley sjálf hafi gert upp sínar ýmsu innri togstreitur. Eins og sagt er, engar fréttir eru góðar fréttir, sérstaklega eftir umrót ríkra tilfinninga. Þegar smalatími og haustslátrun var lokið norður á Íslandi, skipulögðu Frú Aðalheiður og Páll bóndi mánaðarlanga heimsókn til dóttur sinnar í Færeyjum. Heimsókn þeirra hafði verið ákveðin áður en atburðir sumarsins gerðust, en samræður þær sem áður eru raktar, styrktu Sóleyju. Ég er ég sjálf, komi þeir sem koma vilja, fari hinir.

Þær Astrid fóru saman til Þórshafnar og tóku á móti gömlu hjónunum, þær útskýrðu ekkert, þær leiddust fram eftir bryggjunni, Sóley kyssti foreldra sína, kynnti Astrid, tók í hönd hennar og þær stóðu hlið við hlið. Heiða og Páll heilsuðu Astrid með kossi, málið var útrætt. Heimsókn þeirra var að öðru leiti góð, þau elskuðu Klaksvík og fjörðinn, dáðust að fjallinu mikla, Píramídanum sem kannski væri manngerður í fornöld og kannski náttúrulegur og vildu vita allt um Trausta heitinn Guðmundsson sem með slysi sínu og andláti hafði verið svo afdrifaríkur gerandi í lífi dóttur þeirra, og afdrifum – og með órakenndum hugmyndum sínum.

Jólin liðu, páskarnir komu og fóru, enn hittust Sóley og Bengt einu sinni til tvisvar í viku og fengu sér franskt kaffi, en ekki lengur danskt vínarbrauð, því nú voru það belgískar vöfflur, og ræddu bæjarlífið, himininn, fjörðinn og alltsaman.

Og spurningin kom öðru hvoru, jú, og aftur, jú, Trausti hafði minnst á forvitnilega forna kenningu um fjallið tignarlega. Þetta bar á góma en var ekki rætt nánar. Sóley var löngu búin að átta sig á að Bengt vildi meira en að vita hvort Trausti hefði sagt henni einhvern leyndardóm. Kannski voru það menn sem hrintu honum, kannski þekkti hann til þeirra, kannski gott betur. Kannski var einhver leyndardómur. Kannski ekki. Hana grunaði að hann vissi til að glæpur hefði verið framinn og vildi ekki að það kvisaðist út.

Þegar leið að vorinu segir Bengt við hana að hann vilji bjóða henni með sér á fjallið, hann gangi suðurhlíð þess á hverju vori, aftur um sumarið og aftur um haustið. Hún leit yfir fjörðinn, á bjartar en brattar hlíðarnar. „Svona svona,“ segir þá Bengt, „þú ert vön útivistarkona, ung og hraust, þú ferð létt þarna upp, mun léttar en ég.“

Sóley elskaði vináttu þeirra, hún bar því sem næst takmarkalausa virðingu fyrir þessum árvaka og vitra öldungi. Ef hann vildi að hún gengi með sér fjallið, var það vinarboð en en ekki kvöð. Þau gengu á fjallið, alla leið á toppinn. Hún skildi þá hversu tignarlegt það var, hversu ægifagurt útsýni var þarna uppi. Hún skildi hvers vegna hún vildi eiga heima þarna, að það var fleira en þau örlög að kynnast Astrid, að verða sérstök hjúkrunarkona og ljósmóðir hjá reyndum og góðum bæjarlækni. Það var meira hér, og dýpra.

Aftur gengu þau saman á fjallið um sumarjafndægur, aftur án samræðna, aftur sami tignarleikinn. Enn dýpri vissa. Eins og andleg vitrun, sem tekur margar vikur að fjara út, en breytir sýn manns á sjálfan sig, annað fólk og alheiminn, orðalaust, skilningur án vitneskju. Þriðja gangan var um haustið. Þá ræddu þau saman, á tindinum sjálfum.

Bengt sagði henni, „ég fagna sambúð þinni og frænku minnar. Hún er góð stúlka, og þú einnig. Mig grunaði ýmislegt þegar ég svo gott sem dró þig hingað í víkina við innfjörðinn. Ég fagna því að úr rættist.“ Sóley leit á velgjörðarmann sinn, „hvernig hafði hann grunað og þá hvað.“

„Ég veit ekki hvernig það er, en maður lærir að lesa fólk“ svaraði hann, „ég sé þig einnig lesa fólk og sé þig beita innsæi þínu á annan hátt en aðrir gera.“ Svo brosti hann „kannski hugsar þú stundum of mikið, en ég held að hún Astrid okkar komi skikki á það.“ Þau brostu bæði. Hún hélt aftur af sér að spyrja nánar hvað hann hefði grunað og hvernig, hluti þess var augljós, en það var eitthvað dýpra þarna. Hún vissi að það kæmi fram.

Sumarið eftir hóf hann að opna fyrir henni leyndardóma fjallsins – í ferlum sem tekur mörg ár að nema - sem felast í fernum elstu leyndardómum allra tíma, og hvernig þeir eru vandlega faldir, og hafa verið frá tímum síðasta faraósins sem var vígður þar – Kleópötru áttundu, Selenu, dóttur hinnar frægu móður sinnar, Kleópötru sjöundu – og hvers vegna leyndardómurinn er svo vandlega varðveittur, hverjir hafa gætt hans í fjórar árþúsundir, og hvernig síðasti hver varðstjóri velur og þjálfar sinn næsta.

--- mars, 2025, gh. ---

 

Eftirmáli

Þegar ég, sem ritar, lá sjúkralegu fyrir hálfu þriðja ári, leið tíminn hægt. Í mánuð lá ég þjakaður af blóðeitrun, gat mig hvergi hreyft og þurfti aðstoð við allt, jafnvel daglegar þarfir, sem krafðist vissrar sýnar á hvar persónuleg mörk eru, þegar starfsfólk sem þú varla þekkir með nafni, þarf að sinna þér á alla hugsanlega og óhugsanlega vegu. Megnið af þessum tíma lá ég í einangrun vegna ástands í þjóðlífinu, sem best er rætt við aðrar aðstæður.

Dugar að segja; vistin var þjáning. Nóg sagt.

Eitt sinn, á dagvakt, segir við mig hjúkrunarnemi sem þetta sumar vann sem sjúkraliði, „þú ert dálítill grúskari er það ekki, þú veltir ýmsu fyrir þér.“ Hún var nýbúin að taka hitann, og þrýstinginn, og í þann mund að hengja upp lyfjagjöf við æðalegginn. „Jú, sumir segja að ég grúski soldið, en mér finnst ég ekki vera neinn pælari“ svara ég.

Svo bætti ég við, „hvers vegna spyrðu að þessu, ég hef ekkert sagt hér sem gefur til kynna eitt eða neitt, annað en ég trúi ekki að ég hafi neitt Covid.“ Hún brosti við þessu en segir síðan – og voru þetta aðrar af tvennum samræðum sem lifandi mannvera átti við mig allan þann mánuð, utan góðs vinar sem hringdi daglega og minnit mig á að lífið heldur áfram – „hvað heldurðu að Guði finnist um fóstureyðingar?“

Ýmsu öðru hefði ég búist við, en alls ekki að hjúkrunarkona spyrði að þessu, og alls ekki mig, því ef hún veit eittvað um mig, þá veit hún að ég er trúaður maður og tek trú mína alvarlega. „Hvers vegna spyrðu að þessu“ segi ég en hún brosti bara og spurði aftur „hvað heldur þú að Guði finnist um fóstureyðingar.“

Ljóst var að hún var ekki að spyrja hvað Guði finnist, eða hvað mér finndist, heldur hvað ég héldi að Guði finndist. Flókið en einfalt. Svo ég vandaði mig við svarið.

„Guð er ekki grunnhygginn. Ég held að prestar hafi ekkert vit á hvað Guði finnst, og ég held að nútímavísindi hafi ekkert vit á því hvað sé rétt eða rangt, og ég held að ef Guð hefur gert konur færar um að fæða börn hafi hann einnig gefið þeim greindina til að ákveða fyrir sig sjálfar hvað eigi við og hvað ekki, og að það komi engum öðrum neitt við.“

Hún brosti við þessu, svo ég spurði hana hvort þetta væri einfalt eða flókið svar, hún sagði að það væri einfalt, en hvort ég gæti einfaldað það. Svo ég sagði, „fóstureyðing kemur engum við nema móðurinni og ef hún þarf að vita skoðun Guðs hefur hún innbyggt vit til að spyrja hann sjálf og án milliliða.“

Þetta þótti minni einfalt, og hálfu ári síðar þegar ég þurfti aftur viku innlögn, skildi ég hvers vegna hún hafði velt þessu fyrir sér, og er auðmjúkur gagnvart þeim trúnaði sem mér var sýndur. Hitt er annað, að í þessari síðari innlögn veitti ég fylgju hennar athygli. Það var á kvöldvakt, sem hún var að endurnýja æðalegg hjá mér fyrir lyfjagjöf kvöldsins, að komið var að mér að inna eftir með viðkvæmar spurningar. Jánkaði hún því, svo ég spurði hvort einhver hefði sagt henni að hún hefði fylgju, hvort henni þætti vont ef svo væri.

Hún sagði mér að sér hefði verið sagt frá svip konu sem stundum væri þar sem hún væri og að af myndum að dæma, gæti það verið langamma hennar. Hún spurði hvort ég sæi fylgjur, ég neitaði því, en að stundum hefði mér fundist bregða fyrir konu sem væri vaxin mjög líkt henni sjálfri, með svipaðan andlitsvip og háralag en líklega gráhærð svo ég vissi ekki háralit, en að hún gengi eilítið hölt.

Kunningjakona mín brosti við þessu. Hún sagði mér að áður hefði svipuðu verið lýst fyrir sér og af myndum að dæma væri hún nauðalík langömmu sinni, nema hún sjálf hafði brún augu og skolhærðan háralit, en faðir sinn væri franskur. Langamma sín hefði verið ljóshærð með grænblá augu. Hún bætti við að langamma sín hefði verið hjúkrunarkona, að hún hefði meitt sig í fjallgöngu á miðjum aldri, og að hún hafi eignast Pál son sinn á laun, og að hann væri afi sinn. Að hann, afi sinn, hefði síðan eignast dóttur, sem hann nefndi Ástríði í höfuðið á sambýliskonu móður sinnar, langömmu, og Ástríður væri því mamma sín.

Vinkonan ræddi þetta ekki nánar, enda nóg að gera við umönnun þurftafrekari sjúklinga, en ég skildi nú hvers vegna svipur langömmu hennar hafði gert vart við sig. Svo ég nýtti mér kyrrðina í sjúkralegu næstu daga og hugleiddi þessar skrítnu verundartengingar, loks spurði ég í einrúminu, „hverju viltu koma áleiðis.“ Átti ég von á þessu venjulega, láta sonardótturdóttur sína vita að litið væri til með henni og af umhyggju og blessun.

Næstu daga, í hvert sinn er ég lá milli svefns og vöku sóttu á mig sýnir, ágengar og skýrar, smámsaman röðuðu brotin sér saman. Tvívegis gat ég spurt vinkonu mína, og kom henni á óvart að ég vissi í hvert sinn meira en hún bjóst við, en jú, miðað við það sem hún vissi, og hvernig sýnir þessara daga mynduðu samlegð (Synergy), raktist sagan upp, sem hér er birt.

Skildi ég í samhengi við lífsreynslu minnar eigin ömmu, sem fædd var í sömu sveit, aðeins sextán árum yngri en langamma vinkonu minnar, og hvernig tilveran var á þeirri öld, að saga væri hér á ferð, og að hún hefði vægi og dýpt.

Ritað og birt, með samþykki.

 

---

e.s. Þessi langa færsla var í raun samin í huganum fyrir tveim árum rúmum, og bankaði reglulega upp á vitundina með hógværð og minnti á að rita sig niður. Hún er birt eftir aðeins tvo yfirlestra og gæti því breyst lítillega síðar.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband