Sunnudagur, 22. desember 2024
-smáræði-
Í myrku djúpi sálar,
loðinn lúinn einn,
bláhellir votur,
ljómar ofan, firrtur.
Kom þú gríma niður,
finndu eigin rót,
bljúgur eigi þorir,
tvinna eigin þráð.
Saman gætum tindrað,
gufur djúpa hyls,
þá bergið gegnumskín,
aldar vélráð dvín.
Glingur stjörnublysa,
fosfór sindur sviða,
eigi mín, né þín,
brátt gusta glitský.
Niður óms og vilja,
ferskur blær við dögg,
þófi tó við ló,
lifnar aldinn grær.
Athugasemdir
Hér kveður við nýjan tón í skáldskap. Þú mættir vel gera meira af þessu eins og Magnús. Það er helzt orðanotkunin sem er innblásin og sérstök. Þótt ljóðstöfum sé sleppt að mestu læt ég það eiga sig. Skáldskapur er allskonar og aðeins bundinn þegar það hentar.
Jólakveðjur, þetta er jólalegt, í anda þeirra jólasveina sem þú hefur fjallað um, Letihaug og fleiri.
Ég þótti góður að teikna í Digranesskóla. Eitt sinn var ég fenginn til að skreyta kennarastofuna með jólasveinum. Ég gerði það en var of raunsær. Kannski var þetta 1979, þar um bil. Ég málaði þá eins og fyllibyttur, með rauð nef og mjög þreytulega. Ég varð að hirða þessar myndir og annar krakki fenginn í verkið, því kennarinn sagði að þessar myndir "hræddu krakkana". Jæja, svona er að vera raunsær.
Mér fannst að menn sem hírðust í hellum allan ársins hring væru svona útlits.
Jólakveðjur.
Ingólfur Sigurðsson, 22.12.2024 kl. 15:55
Góður Guðjón, -þetta smáræði er bæði vel ort og fallega orðað, tek undir með Ingólfi hér kveður við nýjan tón. Gleðileg jól.
Magnús Sigurðsson, 22.12.2024 kl. 17:37
Takk fyrir félagar, og bestu kveðjur.
Hef ekkert vit á skáldskap, en þetta bankaði uppá og krafðist að vera sett í orð.
Guðjón E. Hreinberg, 22.12.2024 kl. 18:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning