-stálpaskjól-

Í Lundareykjadal er til bærinn Skálpastaðir og í Skorradal (næsta dal við) eyðibýlið skógræktarjörðin Stálpastaðir. Ég Skorrdælingurinn var oft orðavilltur á þessum líku nöfnum þegar ég var unglingur, en árin sem ég vann í Skógræktinni hjá Ágústi Árnasyni þáverandi skógarverði, slípaðist það til.

Á Skálpastöðum - sem er eða var tvíbýli - býr öndvegisfólk, sem hefur mannbætandi áhrif á alla sem þeim kynnast, rétt eins og með Gústa, sem lagaði margt misjafnt úr uppeldi færsluritara - og ágætt að komi fram.

Sem er efni færslunnar, því nýverið var færsluritari á ferð hér í bæjarfélaginu og átti erindi á verkstæði mannað fólki sem einnig hefur mannbætandi áhrif á alla þá sem þar koma við. Einn starfsmanna glotti kankvíslega í miðjum samræðum um bifreið sem þar var á lyftu, og segir; áttu við ágætt sem betra eða verra en gott?

Gaurinn sem er hálfri kynslóð yngri mér sjálfum, minnti mig á muninn á Góðri einkunn og Ágætis, sem við síðan ræddum stuttlega. Segi ég við hann; takk fyrir að minna mig á þetta, ég var eins og þú í mörg ár og áminnti um notkun þessara orða, en var búinn að gleyma.

Eins er með fínan pistil Sæmundar frá í morgun (sjá hér) þar sem rædd eru tvö orð í nútímaíslensku sem honum hugnast lítt en mér betur: Að umræðan um góða og [mis]vandaða Íslensku er alls ekki dáin, þó dímoninn Árnastofnun vinni af alefli gegn hvorutveggja.

Menn og málefni slípast, Gunnar Dal - sem var elskaður og virtur alþýðuspekingur og mikilvirkur (Proliferate) kennari og bókaritari - mælti fyrir því að við værum ekki of knésk fyrir þróun lifandi máls, að þó gott sé að vita vel hvað gott og vandað mál sé, og þekkja eldri brigði þess, þá megi leyfa því að dafna á eigin hátt.

Sjálfur kann ég ekki Íslensku, og þreytist seint á að minna á, en ég ann málvitund meningar minnar og hef sæmilega tilfinningu fyrir merkingarfræði, hljóm og ómloðun (Resonance), auk þess að hafa reynslu af bæði dulspeki og dulfræði (Mysticism, Mysticalism) sem afhjúpað hefur blæbrigði sem birta að mínu mati ágætlega skuggana sem afmarka og afhjúpa bæði bygginguna og [zen]garðinn.

Ég þekki til tveggja ungmenna sem eru framúrskarandi vel upp aldar manneskjur og til fyrirmyndar til orðs og æðis, en móður þeirra þekkti ég ágætlega um skeið. Þegar við kynntumst var hún ótvírætt flottasta skvísan á ballinu og þar sem minn setur markið ætíð ofar en hann ræður við (því ef draumar rætast til hálfs, skal hafa þá stærri), tókust góð kynni.

Mannorðs hennar vegna, vona ég að enginn uppdikti hverún er.

Minn var þó ekki á því að kynnin yrðu meira en tjaldað til einnar - því hann á til sína yfirborðshyggju þó hann feli það - en hann komst að því að flottasta skvísan, sem kann allt um förðun, tísku og snyrtingu, hefur gengið sýningarplankann (Catwalk) og er greinilega sú sætasta, gæti verið betri í Íslensku en hann, kunnað Algebru betur en hann, og verið vandaðri til hugsunar, skilnings og dýptar en hann.

Aldingjum og fjölæringum var líklega ljóst á annarri efnisgrein hvert erindið er. En þó við ritum oft að menningin sé dáin og samtíma túngan fúsk, og þó við höldum að unga fólkið sé týnt - sem það er - þá segir maður margt þó meiningin sé sumpart önnur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband