-lyklaborðsæfing-

Stundum þegar ég labba mér í tölvuverslun, æfi ég smávegis texta á lyklaborðum tölvunnar sem mér líst vel á, til að vita hvort lyklaborðið sé nothæft. Reyndar er ég frekur á lyklaborð, og þarf að skipta þeim út nokkuð reglulega, jafnvel á fartölvum.

Í morgun þurfti ég að skipta um lyklaborð, en átti tvö í skúffu - enda alinn upp í sveit. Reyndar fylgist ég með í nytjamörkuðum, hvort þar dúkki upp góð lyklaborð með PS2 tengi, því það er minna lagg á þeim. Allavega, hið fyrra sem ég prófaði reyndist vera drasl, en hið síðara sem þessi færsla er rituð á, er nothæft, en stirt.

Venjulega rita ég texta á borð við eftirfarandi, þegar ég þolreyni lyklaborðið:

Einu sinni var asni sem fékk sér apa, nei sko sagði asninn, ég á apa, sagði hann. Hver vill nú söðla apann svo honum megi ríða út eins og góðu hrossi sæmir? Ekki ég sagði kommúnistinn, ekki ég sagði valdstjórnin, ekki ég sagði bloggarinn, ekki ég sagði embættismaðurinn, ekki ég sagði femínistinn, ekki ég sagði þingmaðurinn. Ég skal söðla apann, sagði asninn, og temja hann svo honum megi ríða út eins og góðu hrossi sæmir, sagði asninn.

Þú átt ekki apann, sagði kommúnistinn, þú hefur ekki leyfi til að temja apann sagði sósíalistinn, þú hefur ekki greitt gjöld af apanum sagði valdstjórnin, þú kannt ekki að söðla sagði bloggarinn, þú hefur ekki fyllt út rétt eyðublöð fyrir söðli né apa sagði embættismaðurinn, þú mátt ekki ríða öpum asninn þinn sagði femínistinn og loks sagði þingmaðurinn að engin lög væru enn komin úr nefnd til að ljóst væri hvort til væri rétt útgáfa af söðli né úthlutun á hverjir hefðu leyfi til að velja rétt hráefni í söðlasmíðina í ljósi umhverfismats né heldur gert ráð fyrir hvernig skyldi úthluta löggildingu, auk þess sem ekki væri búið að yfirfara endurskoðaða reglugerð fyrir tamningu á öpum, sagði þingmaðurinn.

Fokk jú sagði þá asninn ég er flúinn til Rússlands. Þú hefur ekki vegabréf og mátt því ekki fara í flugvél, sögðu þá allir hinir í einum kór.

Lyklaborðið stóðst þolraunina, svo við notum það í smátíma - eða sjáum til hvort ómeðvitaða fingrafimin venjist því - en lyklarnir eru sem fyrr segir, stirðari en á lyklaborðinu sem dó í morgun, eða var sett í fyrningu. En eins og allir vita, vélrita ég [stundum] of hratt (og les ekki alltaf stafina um leið) og þá nær villupúkinn að smokra sér inn á milli.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður Guðjón, -en þetta er ekki gott lyklaborð.

Eitt lykilatriði vantar, hvað sá sem málið varðaði hafði að segja um það hversvegna asni má ekki temja apa til að ríða honum eins og góðu hrossi sæmir. -Það er af því að þú ert asni asninn þinn.

En þetta með kommúnistana, femínistana, embættismennina og valdstjórnina er reyndar ekki alveg nýtt eins og þú kemur inn á, -og btw bloggarar eru yfirleitt apar rétt eins og þingmenn.

Þessir asnar sáu ekki fram úr reglugerðafarganinu þegar Borgfirðingar ætluðu að leysa sorpmálin hjá sér með því að fá sér svín til að éta matarafganga.

Annars góð saga og gott Tull. Hlakka til að lesa meira frá nýja lyklaborðinu. Sá sem við það situr er sagnabesti bloggarinn.

Bestu kveðjur.

Magnús Sigurðsson, 22.8.2024 kl. 17:14

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Takk fyrir góð orð, Magnús, ég lofa að tuða smávegis þegar ég hólið rennur af mér :)

Guðjón E. Hreinberg, 22.8.2024 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband