Miðvikudagur, 22. maí 2024
Iðrun er duldalausn, sem elur ást
Hvert einasta manngrey* (Humanoid) sem fæðist og deyr, á eitthvað í hugskoti sínu, sumt grafið í undirvitund (Subconscious) og jafnvel enn dýpra í dulvitund (Unconscious) sem það fyrirverður sig fyrir. Við eigum þetta öll, eitthvað sem við höfum hugsað, eða gert eða sagt, sem er nægilega ljótt - án tillits til þess hvað öðrum kynni að finnast - til að við viljum ekki líta minningu þess eða hugsun, hvað þá minnast á (vitna um).
Þetta leynist ævinlega bak við ógnarstórt tré sem heitir hugarduld (Complex) og oft djúpt í skógi hugardulda (Complexes) sem ævinlega sviðsetja drauga okkar eigin sjálfsímynda, eða hugmynda sem við notum til að viðhengja eða grímast sem við sjálf. Ég er svona, ég er ekki svona, ég er þannig en ekki þannig, og svo framvegis. Sjaldan eru þessar hugareikur okkar eigin, og oft ekki heldur vegna áhrifa annarra, heldur flækjur sem verða til úr óuppgerðum hugarflækjum sem - einmitt - vegna þess að við felum undir yfirborði dagvitundar okkar við sjaldan leiðum hugann að, hvað þá að greiða úr.
Sé textinn hingað til flókinn, og tyrfinn; það er hvorki af tilviljun né klaufaskap.
Ef það er ekki augljóst.
Eitt sinn stóð ég fyrir utan húsgafl, einmitt í Hafnarfirði, en heitið Gaflari er einmitt oft notað um Hafnfirðinga, og reykti eina reykju. Meðan ég reykti reikaði hugurinn að hundskepnu sem ég átti. Hundurinn var frekar greindur og fyrir vikið átti sínar hugarflækjur sem stundum komu manni skemmtilega á óvart, og örsjaldan dálítið leiðinlega og jafnvel frekar svo.
Í sviphendingu skildi ég að sumt sem hundurinn átti erfitt með að vinna úr, þegar hann vissi að hann hafði gerst "sekur" að eigin áliti, fyrirgaf ég honum fölskvalaust og án eftirsjár. Án þess að skilja hvers vegna, sá ég að þetta átti ekki við um sjálfan mig!
Þú getur ekki fyrirgefið sjálfum þér það sem býr í undirdjúpum sálar þinnar, nema opna fyrir gáttir sem hleypa ljóstýru þangað niður, að leyfa því sem þar dylst og hefur jafnvel falið sig árum saman, að birtast í sinni ljótustu mynd, að rýna það fölskvalaust og af vilja. Þú getur lifað langa ævi án þess nokkru sinni, að þekkja eigin huga, né vitað af eigin fölskum og fólskum, eða séð eigin fegurð, hvað þá tekið við heilun, því vani hins vankaða huga leiðir sjaldan að óþægindum eigin dulda, um leið og eitthvað hreyfir við þykkninu er skipt um efnistök eða flúið í fang afþreyingar, og stundum fíknar.
Eða það sem verst er, fela sig í orðræðu eigin útskýringar og réttlætingar, sem aldrei er rétt, og sjaldnar viðeigandi. Sjáldan sér hinn sálarflækti, hvernig aðrir nýta sér þetta ástand ...
Þetta krefst ásetnings og smámsaman æfist það eins og af sjálfu sér. Þetta er eins og að halda á blautu sápustykki með alltofstórum uppvöskunarhönskum. Ásetningurinn skilar meiru en einurðin; það að vilja opna, að vilja gægjast, en reyna það ekki, hleypir ferlinu af stað og undirvitundin sem lýtur eigin lögmálum, hleypir fram dropaminningum og duldum í smásneiðum, inn í ljóskeiluna sem gægist niður um gættina.
Að taka við hverju því skrímsli sem þar gægist fram, líta það, skilja það; og fyrirgefa því. Heitir iðrun. Iðrun ásamt fyrirgefningu er leyndardómur ástarinnar, sem sjálf hvílir á kletti virðingar.
Farir þú þann veg, breytist bugðótt og þröngt einstigi tilverunnar í hellulagt breiðstræti ljómunar og auðmjúks sjálfsvalds. Sé það fetað, meðfram blómahafi og um laufskrúð brautarkantanna, er þess skammt að bíða að þú finnur höndina sem leiðir þig, styrkir, og blessar.
Enginn kraftur í veröldinni er meiri þessum. Eða næstum enginn, en það er leyndardómur þess sem skapaði hann. Dugar að segja, að enginn máttur nær valdi á helguðum* huga. Hér má minna á að Iðrun, Fyrirgefning, Bæn og Vitnisburður; eru lyklarnir fjórir sem uppljúka hurðinni margumræddu, út úr myndastyttugarði fallinna dýrða*.
Stundum þarf fyrst að skilja hvernig maður getur elskað fölskvalaust og án afmörkunar einhverja skepnu sem ekki veit hvernig á að elska sjálfa sig, eða ekki enn.
* Bæði mann-verur og mann-eskjur, mann-kyns og mann-fólks
* Helgur er ekki hið sama og helgaður.
* Og Satan leiddi Jósúa Maríuson upp á hátt fjall (djöfullegra sýna) og sýndi honum allar dýrðir veraldar - sem hann hafði í valdi sínu - og bauð Jósúa vald yfir þeim gegn því einu að hann myndi efla hagsmuni hans (tilbiðja).
Athugasemdir
Sá sem ætlar að ná tökum á tilfinningalífi sínu, fordómum þar með töldum, verður að vita hvaðan tilfinningarnar koma eða fordómarnir, og hvort gagn er í þeim, hvort fordómar byggist á rökum eða rökleysu, eða tilfinningar. Til að skammast sín ekki fyrir skoðanir þarf að vita hvað á rétt á sér. Ekki endilega bullið sem fjöldinn segir.
Nú er það svo að biskupar, forsetar og pólitíkusar fá sömu prófraun og Jesú og segja slefandi "já", þannig að vandinn er ekki hvað Jesú gerði heldur hvað gerum við í þeim sporum.
Til að elska sjálfan sig og aðra þarf líka að kanna það skuggalega. Þetta með að skilja skrímslin og fyrirgefa þeim, það er snjallt, mikilvæg niðurstaða í þessum pistli sem fer framhjá of mörgum. Það er þetta sem fólk gerir almennt ekki, heldur hatast og magnar þannig skugga og hrylling.
Já, við björgum ekki heiminum, en kannski okkur sjálfum...
Ef hægt væri að kenna stríðandi þjóðum þetta, og þeim sem byrja styrjaldir...
Ingólfur Sigurðsson, 23.5.2024 kl. 01:18
Já segðu, það væri hægt að setja alla í ipcrest heilaþvott og breyta frumskógi samtímans í gamaldags siðmenningu ...
Guðjón E. Hreinberg, 23.5.2024 kl. 02:16
Góður Guðjón, -þessi pistill er magnaður og einstaklega vel skrifaður, lýsir vel til hvers við komum.
Magnús Sigurðsson, 23.5.2024 kl. 05:33
Takk fyrir innlitið, Magnús, og góðu orðin.
Bestu kveðjur.
Guðjón E. Hreinberg, 23.5.2024 kl. 12:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.