Um sveppasýkingar [hugarástandsins]

Þegar umræður komu fyrst fram um svarta húsasveppinn vakti það marga til meðvitundar um heilbrigði húsakynna sinna. Hræðilegar sögur birtist af stórfelldu heilsutjóni fólks sem bjó í húsum þar sem aðstæður voru hagstæðar þessum vibba.

 

 

Þeir sem kynnst hafa þekkja vel hvernig hann t.d. elskar að hreiðra um sig í kjöllurum, á háaloftum eða í gluggakörmum, þar sem mikill raki er og talsverð hitaskipti eftir atvikum.

Þeir sem búið hafa í smituðum húsum þekkja lyktina af honum og þeir sem orðið hafa veikir af honum eru sérlega næmir fyrir bitinu af honum þegar gengið er í rými þar sem ósýnileg smá gróin svífa í rólegheitunum leitandi að næsta gróðursæla stað.

Á þeim árum þegar þessar umræður voru í sem hæstum gangi fyrir u.þ.b. fimmtán árum, þekkti ég vel til Tea Tree olíunnar, en ég hafði kynnst henni erlendis fyrir tuttuguogfimm árum. Þegar þetta var hafði fólk ekki enn kynnst henni hérlendis - þó það hafi gjörbreyst síðan þá - og enn færri uppgötvað gildi hennar varðandi sveppasýkingar.

Ég sjálfur lenti í því eitt kvöld, þar sem ég var að taka til í útigeymslu, að í misgáningi þefaði ég upp úr plastpoka sem hafði að geyma gamla peysu. Hvers vegna ég notaði nefið til að gá hvort einhver ýldufýla var í pokanum, hef ekki minnsta grun um það. En sársaukinn í öndunarfærunum þegar gróin bitu í hvaðeina sem þau náðu í, var vægast sagt óþægilegur.

Lá mér við aðsvifi, og í ljósi alls sem maður hafði lesið og heyrt, greip talsverður kvíði í mann.

Þar sem þetta var um kvöld og ég var ekki viss hvort læknisfræðin ætti einhver úrræði, ákvað ég að bíða til morguns, en vanlíðanin var umtalsverð, ásamt svima og kvíða, svo ég ákvað að dæla í mig C vítamíni fram eftir kvöldi og á hálftíma fresti andaði hressilega að mér upp úr Tea Tree glasi og nuddaði olíunni neðan við nasirnar.

Hvers vegna ég tengdi Tea Tree olíuna þarna við, veit ég ekki því á þessum tíma voru engir að ræða neinsstaðar, hvorki hérlendis sem erlendis, um ágæti hennar í þessu samhengi. Fann ég þó samstundis þarna um kvöldið að sveppagróin hötuðu þessa lykt og að hún gelti þau. Svo ég hélt úrræðinu við þar til mér tókst að sofna - líklega tók ég þrjúþúsund mg af C þetta kvöld.

Allavega, þegar ég vaknaði um morguninn var líðanin talsvert skárri. Enn viðkvæmur í öndunarveginum, svo ég hélt meðferðinni áfram fram yfir hádegi og var orðinn fínn þegar líða tók á daginn.

Það var reyndar engin sveppasýking í þessu húsi, en þegar ég flutti í næsta hús var sveppur í gluggunum þar, en það hafði staðið autt í einhverja mánuði. Setti ég þá sterka Tea Tree blöndu í úðabrúsa og spreyjaði ofan við sýkinguna. Allir vita að ekki má spreyja beint á hana, því það getur dreift gróunum, en þessi aðferð úðar í umhverfinu og fellir síðan daufa úðaþoku niður yfir sýkinguna.

Gerði ég þetta vikulega í þær tvær til fjórar vikur sem sveppurinn ákvað sjálfur að hypja sig. Einnig setti ég Tea Tree dropa í vatnsskál á alla miðstöðvarofna í húsinu, svo ávallt væri lykt af olíunni í húsinu, í þeirri [hæpnu] vangaveltu að sveppurinn myndi forðast bólfestu í fnyk sem honum var klárlega illa við.

Já, ég held að sveppir hafi vitund. Held að það sé augljóst öllum þeim sem vita að sveppir geta virkað eins og dóp.

Held reyndar að allur Alheimurinn sé samsettur úr vitund, en við skulum blogga um það síðar. Getur grjót og járn haft vitund? Já, en ræðum það síðar. En það hlýtur að vera augljóst að hvorutveggja andar og hreyfist, en eftir öðrum tímalínum en við.

Aðal atriðið; ef það hefur vitund, þá er hægt að ræða við það.

Ég var t.d. haldinn ofsakvíða (fælni) hvað varðar býflugur frá fimmtán ára til fertugs, að ég ákvað að ræða við býflugur og vespur sem flugu inn um gluggann, og aðstoða þær við að finna það sem þær þráðu helst, að komast aftur út að leita blóma, og fælnin hvarf.

Nú liðu þrjú ár í þessu húsi og leki kom upp í þakinu. Beið ekki boðanna að sveppalyktin kom upp aftur. Fáeinar vikur liðu áður en hægt var að gera við þakið, en þú veist hvernig er á milliloftum, þegar sveppurinn er kominn er hann ekki á förum.

Viti menn; honum líkaði ekki uppgufan af Tea Tree olíunni af miðstöðvarofnunum, og hann vissi nottla ekki að ég beitti henni kröftuglega. Það tók hálft ár að semja. Ég þarf ekki að taka fram að gróin í loftinu komust ekki framhjá Tea Tree þokunni sem ég andaði frá mér, enda settur dropi neðan við nefið kvölds og morgna. Kæmust einhver gró framhjá þeirri víggirðingu tóku á móti honum C vítamíns vopnuð hvít blóðkorn sem rusluðu þeim út.

Hef oft heyrt síðustu fimm til átta árin að fleiri hafa nýtt þessa uppskrift, en með misgóðum árangri. Svo hver veit. Kannski er það bara útgeislunin ... eða þannig.

Yfirburða vitundarástand og yfirvegaður hugur, hefur aðra útgeislun en kvíði, vonleysi og sérfræðingadýrkun.

En að öllu gríni slepptu.

Ég hef stundað heitu pottana tvisvar til þrisvar í viku í þrjátíu ár. Það gefur auga leið að maður fær sveppasýkingu í táneglurnar ef maður gætir sín ekki. Almennt er talið að þú fáir tásvepp við að smitast af slíku frá öðrum sem trítla berfættir um á blautu sturtugólfinu.

Kannski er það rétt, en ég hef fallið frá þessu. En áfram með söguna.

Þegar ég fékk fyrst slíka sýkingu, allavega svo ég tæki eftir henni, fór ég nottla til heimilislæknisins. Hann sagði mér að vissulega væri til lyf, en það tæki þrjá til fimm mánuði að virka og það væri allsendis óvíst hvort það virkaði.

Ég sleppti því að taka þessi lyf og hóf að setja einn dropa af Tea Tree olíu á tærnar á mér í hvert sinn sem ég kom heim úr sundi. Það virkaði, en mjög hægfara. Mér tókst að slá þetta niður að mestu og síðan halda þessu í skefjum að mestu. Þannig liðu árin. Ég vil fara í sund, lyflausnir virka illa ef þær virka, en TT hélt þessu við túnfótinn en ekki úr jafnvægi.

Öðru hvoru las maður sér til og öðru hvoru hugleiddi maður, og smátt og smátt komst ég að þeirri niðurstöðu að þú smitast ekki af þessum óþverra vegna annarra sem trítla um á sturtugólfinu. Ég held að við séum alltaf með einhverja sveppagró sem við fáum úr umhverfinu en spurningin sé hvort sveppurinn vilji hreiðra um sig.

Á tímabilinu sem húsið var sýkt af þessu, en ástandið var verst í um það bil hálft ár, fékk ég einnig svepp í fingurneglurnar. Á þeim tíma ákvað ég að gera tilraun með sjálfan mig - vísindin maður - og setti hálfan til heilan lauk í daglega mataræðið; viti menn, sveppir forðast fólk sem borðar mikinn lauk! Auðvitað setti ég líka TT á neglurnar, en allavega urðu þær fínar.

Nú gæti lesandinn haldið að þær hafi orðið fínar um leið og TT rak sveppinn úr húsinu; nei. Það var ekki svo einfalt.

Nú bregður svo við að fyrir réttu ári eignaðist ég gúmmístígvél sem ég féll fyrir. Ég skar af þeim, svo þau voru aðeins ökklahá, og ég notaði þau öllum stundum, og helst berfættur. Vissi betur en hugsaði ekki útí það. Fílaði þessi stígvél í tætlur.

Auðvitað gaus upp sveppasýking á tánum, og í þetta sinnið all svæsin. Mjög svæsin. Hún breiddi úr sér út fyrir neglurnar svo ég fékk rauð fleiður á húðina. Nú dugði ekki húsráðið lengur, laukur, Tea Tree olía, og yfirburða vitundarástand bjó aðeins til pattstöðu. Sýkingin hörfaði talsvert, en þó langt frá því að tapa stríðinu.

 

 

Þá var bætt við læknisráðinu; að taka fyrrgreind lyf og fylgja ráðum hjúkrunarfræðinga og fara í reglulega fótasnyrtingu. Fótabað með matarsóda tvisvar í viku. Sýkingin hörfaði enn meir og varð viðráðanlegri, og gekk svo vel að maður sá fram á að sigra stríðið á kannski ári, í mesta lagi hálfu öðru.

Í samræðum um þetta við konu úti í bæ, segir hún; pabbi minn glímdi við svona líka, árum saman, svo fór hann að baða tærnar upp úr ediksblöndu.

Hm.

Minn setti ediksblöndu á úðabrúsa (50/50) og spreyjaði tærnar kvölds og morgna og tveim vikum síðar var sveppurinn horfinn. Nú er spreyjað annan hvern dag, annað hvort að kvöldi eða morgni. Ekkert mál.

Ég spái því, að innan fáeinna missera, rétt eins og Tea Tree olía er nú til á öllum betri heimilum, að flestar sundlaugar verði komnar með sprey brúsa með eplaediks blöndu í alla búnings- og sturtuklefa.

Píndi mig til að skrifa um þetta, því ég held að það sé nauðsynlegt þó leiðinlegt sé. Það er mun skemmtilegra að skrifa um sveppasýkingu hugarástandsins en um tærnar.

Nú er það svo að þegar kemur að alls kyns grúski og uppgötvunum, að fólk sveiflast frá einum öfgum til annarra. Þetta er ein af þeim ástæðum að meðalhófsreglan krefst þess að við treystum viðurkenndum og öguðum sérfræðingum til að finna út og fjalla um allskyns hluti.

Er blanda af eplaediki lausnin við tásvepp? Nei, hef ekki hugmynd um það. Kannski losnaði ég við óværuna útaf samlegðaráhrifum allra þeirra úrlausna sem ég hef leitað til síðan í fyrrasumar. Ég hef t.d. gert talsverðar breytingar á mataræði á umliðnum vetri. Hver veit hvað veltir ásnum.

Ég er þó sannfærður um að sveppasýking í tám er ekki vegna smits í sturtum, heldur vegna ójafnvægis í eigin umhirðu, og ég held að sú umhirða sé sambland eða samlegðaráhrif af fleiri þáttum en tveim.

Margir landsmanna glottu þegar Áramótaskaupið gerði gys að öllum kvíðasjúklíngunum sem urðu sér úti um krem með Ivermectin og sleiktu það eftir allskyns uppskriftum. Þúsundir fólks sem ekki trúði á sprautuna, trúði á Vírusinn sem Enginn sannaði að væri til.

Þegar þú hefur eytt árum og áratugum utan við ramma meginstraumsins, kynnistu allskyns. Margir sem maður kynnist t.d. í jaðar-heilbrigðinu, hata Lækna og Lyflausnir meginstraumsins eins og pestina. Sumt af þessu fólki finnur lykt af húsasvepp þar sem enginn húsasveppur fyrirfinnst, og þau myndu úða í sig C vítamíni og bera á sig TT olíu, öllum stundum aþþíbara.

Þú sæir það hins vegar ekki í gegnum yfirveguðu og fínu blogg greinarnar sem sumir þessara uppdubbuðu vesalinga fá birta í Smartlandi eða á öðrum Elítumiðlum, eða þá kvíðafulla lesendur þeirra og jaðar-antivista sem vilja vekja þig til sannleikans eins og enginn sé morgundagurinn, en hafa sjálfir ekki vald á sínum eigin Psychosomatic tilvistar kvillum.

Dulspeki heimurinn er einnig í svona öfgum. Í sumum kristnum söfnuðum eru iðkaðar aðferðir til að losa fólk undan áhrifum illra anda. Oft fylgir þessum aðferðum ákveðin líkamleg viðbrögð. Stundum fellur fólk í stafi eftir svona reynslu og upplifir sig ýmist undir áhrifum illra anda eða haldið illum öndum, þar sem engir illir andar eru. Svo gerir það bæn og handahreyfingu, og viti menn; líkamlegu viðbrögðin sönnuðu málið!

Svo kemur meginstraums fólkið - sem í dag er öfga költ sem hefur sannfært sig um að það hafi meðalhófið á valdi sínu - og bindur á sig trefjamottu, heldur sig tvo metra frá öðrum í röð, og mætir í sprautur, vegna þess eins að opinber skottulæknir sagði þeim sögu sem þeirra eigin reynsla hefði átt að segja þeim að væri lygasaga; og sönnuðu þar með sjálft sig haldið illum öndum, og viðhélt síðan andavaldinu sjálfviljugt, og hóf svo að réttlæta lygar opinbera töframannsins.

Já, ediksblanda í spreybrúsa getur hjálpað þér að losna við tásvepp. Meiri laukur í mataræðinu þínu getur komið í veg fyrir að gróin líti við tánum á þér. Yfirvegaður hugur, sem er svo vel að sér að hann þarf ekki út fyrir rammann því ramminn er ekki lengur til, getur sigrast á öllum vandamálum hins sturlaða heims.

Nema þegar vandinn er blessun í dulargervi, nottla.

 

Af tónlist dagsins.

Lagið hér að ofan - Common People, eftir Pulp - var gerð snilldarlega skil af William Shatner fyrir nokkrum árum. Það var freistandi að nota hans útgáfu en gerum smá yfirbót með öðru lagi af þeirri plötu, Together.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Árnason

Takk Guðjón, fyrir góðan pistil.Það er þetta með það huglæga. Hefur allt viðund ? Þú sagðir einhvern tíman á þá leið að það væri undravert hvað nudd og fallegar hugsanir skiluðu miklum árangri. Þetta var tengt hundi sem þú áttir.

Fyrir um það bil tveimur árum síðan fór ég að vakna á næturnar til að pissa.. Hafði svosem heyrt að þetta gerðist oft þegar fólk er komið á efri árin.
Mér fannst þetta pirrandi, og eina nóttina, um fjögurleitið ákvað ég að spjalla við blöðruna. Hún væri teygjanleg og ætti að geta rúmað, alveg 700 til 800 millilítra án vandræða. Hún yrði að átta sig á að hún væri partur af heild og þetta væri bara eigingirni að haga sér svona. Velti mér á hina hliðina og hélt áfram að sofa. Hef ekki þurft að vakna á næturnar síðan.

Vildi að ég hefði áttað mig á Jesaja 34-1 „Gangi nær, þér þjóðir, að þér megið heyra!Hlýðið til, þér lýðir! Heyri það jörðin og allt, sem á henni er, jarðarkringlan og allt sem á henni vex! „ þegar  vinur minn einn kom mér á óvart.

Við vorum á röltinu. Það var ekkert fast munstur á því, hvenær og hvað oft. En alltaf af og til. Þetta var á góðviðrisdegi og Alfa skondraði á undan okkur.

Man ekki hvað við höfðum verið að ræða um, en - þá kom það.

-Ertu enn á þeirri skoðun að jörðin sé vitiborin ?
-Já ég enn á þeirri skoðun.
-Og að lofthjúpurinn sé einskonar ára um hnöttin, á svipaðann hátt og áran er umhvefis líkamann ?
-Já, gefur það ekki augaleið ?
-Og hvernig ætlarðu að rökstyðja það ?

Ég leit í kringum mig, eins og til stuðnings. Það var bekkur framundan.
-Tyllum okkur, ég held ég þurfi að fá mér í pípu núna.
Það var stutt í bekkinn, við sögðum ekkert, settumst og ég var með kaffi, nema hvað. Fór að troða í pípuna og velti vöngum hvort ég gæti útskýrt. Af hverju ?
Um rökstuðning yrði varla að ræða.

Og edikið er allra meina bót, en þykir ekki nógu fínt.

Haukur Árnason, 27.4.2023 kl. 11:32

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Takk fyrir þetta Haukur. Mjög fínt.

Já, þegar hundurinn minn, Ljúfur, fékk blöðruhálskrabbann, notuðum við bæði lausnir Dýralæknisins og óhefðbundnar lausnir, og bættum við jákvæðri styrkingu með snertingu og orðum. Læknirinn átti von á - miðað við reynslu sína - að Ljúfur ætti þrjá til fimm mánuði ólifaða, en hann átti þrjú heilbrigð ár eftir að hann náði sér af krabbameininu.

Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 27.4.2023 kl. 11:42

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir tea tree trikkið.

Borax er víst líka brúklegt til fleira en þvotta. Einn kunningi minn losnaði við þrálátan tásvepp með því að bera á hann klór.

Ég losnaði við mýs úr minni íbúð í Noregi með keisaralilju lauk, -þekkt ráð hjá sumarbústaðaeigendum.

Og vel á minnst hunangsflugur, þessar stóru gulröndóttu humlur sem lifna fyrstar á vorin, -skilja mannamál. Geitungum er yfirleitt nóg að senda hugskeyti.

Það er samt ekki sagt frá þessu í sjónvarpi, -hvorki í fréttum né nýjustu tækni og vísindum.

Takk fyrir góðan pistil.

Magnús Sigurðsson, 27.4.2023 kl. 16:29

4 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þú ert með sveppasýkingar vegna veiklaðs ónæmiskerfis.  Húsasótt er af sama toga og leggst bara á þá sem eru með verulega veiklað ónæmiskerfi.

Lækningin felst oft í að hætta að borða allar plöntur. Egg og beikon og stórsteikur í öll mál í minnst 12 vikur.

Guðmundur Jónsson, 28.4.2023 kl. 15:48

5 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

 Húsasótt? Kannast við heitið.

Guðjón E. Hreinberg, 29.4.2023 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband