Laugardagur, 1. október 2022
Það sem segja þarf, getur enginn sett í orð
Þessi færsla er ekki um neitt sérstakt. Held að hún sé frákast eftir öfgalöngu færsluna sem ég reit á undan þessari. Mig langaði að setjast við bláskjá, með sígó og kaffi og tónlist, og setja saman langan texta um allt og ekkert.
Það er bilað erfitt, heimspekilega, að ræða samtímis allt og ekkert.
Musashi kenndi mér að skilja þetta.
Það tekur fimm mínútur að lesa það.
Ég var átján mánuði að skilja hvað ég las.
Held ég.
Áskorun, áskorun, áskorun!
Hvað er ælífð (Eternal) og endaleysi (Infinite)? Sérðu hvers vegna það er mikilvægur munur á þessum tveim hugtökum án útskýringar? Sé svo, þá veistu að lína Evklíðs (Eucliden line) er markleysa, útdregin hugmynd innan ímyndaðs en óraunsæs veruleika, punkturinn sömuleiðis.
Bein [endalaus] lína með púnkt einhversstaðar? Síríuslý?
Skilningur á Evklíð er nauðsynlegur, engu að síður. Sem minnir á rangvilluna, Pí! Pí er ekki til, þó virðist það, hvað, hafa engan endi? Það hefur upphaf, og reglu, og óraunsæi, tilgangslaust, en þó. Úff, Pí firrir menn vitinu.
Pí er ekki 3,1459...n! heldur einn. Eftir því hvort þú kannt eitt stærðfræðitúngumál eða fleiri. Ekki einu sinni Kúrt Gödel fattaði þetta, snillíngur sem hann var. Veistu hvers vegna engum er kennt neitt um Gödel? Hann og Einstæn voru miklir vinir. Hef rætt þetta.
Skiljir þú svona pæl, veistu að Hegel, Kant, Spinosa og Descartés, voru allir að herma eftir snilld Aquinas sem sjálfur áttaði sig á að einungis eitt af mörgþúsund rökum hans væri raunsætt, og að einungis einn heimspekingur gæti séð þetta og að hann myndi fæðast í landi norðurljósanna.
Létt spaug.
En án gríns, þegar hann neitaði að klára Summa Theologica, sagði hann að honum hefði vitrast sýn sem væri dásamlegri en allt sem hann hefði áður getað lýst, síðan sagði hann ekki meir og eyddi afgangi tíma síns í kyrrð og bæn.
Eða eins og rökþræta John Lennox og Peter Atkins hefur leitt í ljós, vísindin geta lýst en ekki útskýrt. (https://www.youtube.com/results?search_query=lennox+vs+atkins)
Stundum þarf að leggja grunn.
Það þarf margar hellur til að leggja gangstétt.
Svo birtist einfaldleikinn.
Rómverjar gerðu vegi sem entust í aldir.
Gangstéttir samtímans endast varla áratug.
Fólk sem býr við ellefu prósenta veruleikann (Efnis-, Vald- og Félagshyggju), lítur á það sem grín, þegar einhver lækkar tónlistina til að sjá betur. Aðrir vita hvers vegna.
Ég sakna stundum Wordperfect 5 Fyrir DOS, eða stundum, þegar ég set saman texta. Ástæðan er einfaldleiki þess og litasamsetning. Þegar þú settir saman texta í WPfDos, hafðir þú bláan skjá og hvítan texta, ekkert annað var á skjánum og þú þurftir að kunna á F-lyklana til að kalla fram skipanir. Þá þurfti að kunna að blokka (eða velja) texta með lyklaborðinu.
Ég er síðasti tölvunotandinn sem nota þetta hugtak, að blokka texta.
Ef þú ritaðir texta í MS Word fyrir Windows gastu, og getur kannski enn, farið í valkosti (Options) og virkjað "white text blue background" og síðan valið "View - Fullscreen" og varst þá kominn með sama ritham. Þetta kann að virka flókið ef þú hefur aldrei skoðað þetta eða hefur engan áhuga á hugbúnaði, en þegar þú ert búinn að eyða fáeinum mínútum í þetta og ná töku á stillingunum, sigra þægindin þig; sérstaklega ef þú hefur ánægju af að setja saman texta.
WPfDos var mikið notað árin 1991 til 1995, ég man ekki lengur hvort það var Íslenskað en ágæt bók var til um það og ef ég man rétt var það Matthías Magnússon sem skrifaði hana. Hann í það minnsta tengdist þessu - þú fyrirgefur ef stálminni mitt er stundum líkara stálsigti. Matthías stóð síðar að útgáfu ágætrar orðabókar sem nefndist Orðabók Aldamóta, sem var bæði til fyrir ensk-ísl og dansk-ísl.
Orðabók Aldamóta var ágætis forrit og þægilegt að nota. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá afrit af þessum hugbúnaði hjá Matthíasi, í tengslum við útgáfu ET-Blaðsins, sem ég gaf út um tölvur og tölvutengd málefni árin 1993 til 1997. Í dag er allt svona komið á Vefinn, ef þú leitarvélar "Orðabók Aldamóta" endar þú t.d. á snara.is.
Mig minnir að snillíngurinn Marínó G. Njálsson hafi eitthvað bisað við orðabókarvafstur á Vefnum. Hann var iðinn við að rita um tölvur og hugbúnað fyrir Morgunblaðið á fyrrnefndu árabili og um tíma skrifaði hann einnig fyrir tímaritið Tölvuheim en það ýtti ET-blaðinu út af markaðnum með örfáum símtölum (var mér sagt bak við tjöldin).
Sem fyrr segir, Marínó er snillíngur og er þessa dagana með áhugaverða starfsemi sem er hjúpuð á betriakvordun.is.
Það sem ég er hér að ræða, er allt saman meir en tveggja áratuga gamalt, og það er rétt hjá þér að þetta skiptir engu máli þessa dagana í streði stundarinnar. Ég fékk mér kaffi, kveikti í reykju, settist við ritþór (Text editor) og ákvað að setja saman stefnulausan texta, leyfa streyminu að ráða för.
Ég veit ekki hvernig er að nota MS Word í dag, hef ekki snert þann hugbúnað síðan 2008, þegar Office 2007 var komið eins og sambland af ælu og skitu inn á allar tölvur hjá fyrirtækjum, stofnunum og skólum. Kerfisfólkið ákvað að þar sem Microsoft hafði gefið út nýtt tölvuvítamín væri sjálfsagt að setja það inn á allar tölvur, þó það væri nákvæmlega ekkert vit í því.
Áðan mundi ég ekki tvö mannsnöfn. Menn sem ég fór að hugsa um í nostalgíunni frá þeim árum þegar ég gaf út ET-blaðið. Nöfnin skiptu engu máli fyrir þessa færslu en ég skrapp fyrst á leitarvél og síðan á Feisið til að rifja þau upp. Ég á auðvelt með að gleyma andlitum og mannsheitum og það pirrar mig stundum, svo ég tók mér pásu, setti meira kaffi í krúsina, og leitaði þar til ég fann.
Á ferðalaginu sá ég bregða fyrir nöfnum genginna manna. Allir samtímamenn okkar muna eftir Jóni Val Jenssyni og Jóhannesi Birni og Jónasi Kristjánssyni. Fleiri menn hafa gengið á vit feðra sinna síðasta áratuginn sem sett hafa lit sinn á umræður samfélaganna á bak við þjóðfélag okkar. Þú veist vafalaust af Einari Benediktssyni sem var einn litríkasti samtímamaður langafa míns fyrir um það bil öld síðan.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar. --Einar Ben
Allir þessir menn höfðu eitthvað að segja, allir höfðu sínar ástæður fyrir að segja og meina það sem þeir létu frá sér fara, enginn þeirra er í smellibeitum tískustundarinnar (Clickbaites of the temporal), allir mótuðu þeir fjölæri menningar okkar og fræ þeirra liggja í jörðinni þar sem [nú dáin] menningin okkar lifnar aftur við.
Hefurðu heyrt um Jef Raskin? Nei, líklega ekki. Hann var aðal hugmyndasmiðurinn á bak við fyrstu notendavændu Macintosh tölvuna frá Apple.
Allar hugmyndir Steve Jobs um hinn notendavæna Makka, komu frá Jef Raskin. Raskin og Jobs urðu ósáttir, eins og er algengt þegar tveir brautryðjendur vinna saman og síðar setti Raskin saman tölvuna Canon Cat, en það er gripur sem ég hefði gaman af að koma höndum yfir, þó ekki væri nema í klukkustund eða svo.
Steve Jobs og Bill Gates eru ekki (eða voru) hugmyndaríkir uppfindingamenn, heldur snillíngar í að sjá þegar aðrir brautryðjendur föttuðu eitthvað og sjá hvernig mætti slípa það í eitthvað söluvænt, að ekki sé talað um, á þann veg að það virki nýstárlegt. Við sem ritum texta eigum t.d. Jobs mikið að þakka hversu auðvelt er að nálgast leturgerðir á borð við TTF og OTF. Hann kom auga á eitthvað, sá hversu snjallt það var, kom því á markað, og Microsoft sigldi í kjölfarið og löngu síðar Google.
(https://learn.microsoft.com/en-us/typography/ - microsoft.com/typography)
Enginn veit í dag hvernig Aldus PageMaker og einnig QuarkXPress ullu byltingu á þessum árum, sem aftur byggðust á öllu sem við höfum tæpt hér á í dag. Ég nefndi ritþór (Text Editor) en þó hóf ég pistilinn á umræðu um Ritvinnslu (Word processor). Úff, flækja?
Til að koma einhverjum texta (eða [hug]mynd) frá þér þarftu miðil og fram til 1995 var miðillinn ávallt prentgripur. Fram til 2005 sambland af prentgrip og vefgrip. Árin sem ritvinnslur voru að koma fram s.s. WordPerfect, Amipro, WordStar og MS Word, var öll ritvinnsla byggð á stöðlum sem voru sambland af hundrað ára þróun á ritvélum annars vegar og lengri þróun á setningu (fyrir prentvélar) hins vegar.
Enginn man eftir Borland Sprint, sem var á dögum Dos stýrikerfisins besta ritvinnslan en hvarf þó af markaðnum að því er virðist mótþróalaust.
Þegar tölvur á borð við Apple Macintosh II komu fram, fóru menn að taka texta og myndir yfir í umbrotsforrit, svo hægt væri að setja saman bækur, bæklinga, tímarit (og stundum fréttablöð) með músardrifnu skjáumhverfi, tölvu. Þá fæddist hugtakið "Desktop publishing" (DTP) og WYSIWYG (What you see is what you get).
Umbrotsforrit á borð við FrameMaker, PageMaker og QuarkXPress buðu einmitt upp á þetta, þú sérð á skjánum hvernig prentgripurinn mun líta út, en þegar þú setur umbrotið saman þarftu að skilja grunnstaðla í efnisgreinastílum, textastílum, línum, síðuskilum og fleiru. Þeir sem ólust upp við slíkar vangaveltur og fóru að vinna með Vefsíðugerð árin 1995 til 2010 voru tilbúnir að setja sig inn í hvað lægi efnismiðlun til grundvallar.
Þeir skildu hvers vegna það gæti verið betra að vinna í bláskjá (blár bakgrunnur, hvítur texti), með enga hnappa í kringum sig, eða sem fæsta. Svo er til annað sem enn færri kunna, en er nauðsynlegt ef þú framleiðir orðabækur, LaTeX! Ræðum það ekki hér, látum nægja að benda á að í haus hverrar síðu þarf að birta fyrsta og síðasta hugtak þeirrar síðu og það er ekki vinnandi vegur nema forskrifta það.
Eitt af því skemmtilegasta við Photoshop er að þú notar frekar flýtilykla til að velja tól og virkni þeirra, umfram hnappastiku, og síðan hliðarspjöld sem auðvelt er að fela ef þú þarft eitthvað fleira. QuarkXPress og nú InDesign vinna á sömu hugmynd. MS Office 2007 vék frá hugmyndafræði Jef Raskin og manna á borð við höfunda Photoshop sem fylgdu hans sýn á vinnuferla, og buðu upp á borða sem hugsar fyrir þig frekar en að bjóða þér gott vinnuborð með tólunum innan hugarfæris frekar en sjónfæris.
Aðeins Quark og InDesign eru enn með fljótandi verkstiku - en hún gæti hentað fleiri forritum.
Nú fattarðu. Fjölærið eða Tískustundin: The Perennial or the Temporal. Við erum ekki að ræða hugbúnað, við erum að ræða nálgun.
Kanntu að gera Cut, Copy, og Paste með öðrum flýtilyklum en Ctrl+X[,C.V]? Þegar þú venur þig á þessa Legacy lykla, pirrar þig ef forritið sem þú notar í það og það sinnið styður þá ekki.
- Ctrl+Insert : Copy to the clipboard
- Shift+Insert : PASTE from the clipboard
- Shift+Delete : Cut TO the clipboard
Á shop.not.is geturðu fundið bók sem heitir Microsoft Word XP. Hún er úrelt en unnin upp úr eldri bók um sömu ritvinnslu, með leyfi Brynjólfs Þorvarðarsonar sem hafði samið þá eldri. Ef þú notar Windows stýrikerfi og ef þú hefur ánægju af góðri ritvinnslu, þá muntu kunna vel við Word 2003 og eldri (XP), því þessar ritvinnslur eru staðlaðar.
Í þessari bók er kennt hvernig þú nærð fullkomnu valdi á textavinnslu án músar. Þegar þú hefur lagt á þig að læra það, en það tekur klukkustund að negla það inn í fingurna, skilur þú ekki hvers vegna fólk þarf hnappa og mýs, eða sambærilegan flækjufótargraut.
Ef þú notar Office 2007 og yngri, eru staðlarnir komnir undir dýpri lagskiptingar því Microsoft frelsar þig frá því að skilja verkfærið sem þú ert að nota. Þú þarft ekki að skilja vírusinn, heldur mætir í næstu Vaxhöll á vegum Bill Gates.
Það styttist í að örmerkið minni þig á það.
Þú sérð þetta á Vefnum, það eru því sem næst engar vefsíður í dag byggðar á neinum miðlunarstöðlum, heldur eingöngu tískusveiflum þeim sem ungir og illa skólaðir tölvutrítlar líta á sem smart, flott, skemmtilegt, huggulegt eða Inn. Þeir sem fyrir fimmtán árum fylgdust með því sem Nielsen Norman Group gaf út um Notendavæna hönnun, eru í dag leiðinlegir og fjarlægir. Jafnvel vefurinn usability.org er eitthvað ómerkilegt djók sem sýnir meira og birtir minna.
Allir eru með svo mikið að það er ekkert eftir.
Við sem viljum einfaldleikann til að sanna að minna er meira, við erum komnir út í horn, sem er ekki vont, það er gott; því við lærum að girða hornið af svo skemmtilegheitin elti ekki og skemmi hornið. Við erum þar í rólegheitunum að rýna í fjölærið og rækta frjókornin sem græða landið þegar skemmtilegheitin klára að brenna akurinn til grunna.
Sem kunnugt er hef ég hætt að nota Microsoft Windows, tja, því sem næst. Ég á eina tölvu sem er með Windows uppsettu en ég þarf að fara yfir í annað rými til að nota hana. Þar get ég notað tvennan hugbúnað, annar þeirra tengist útgáfu sem hefur enga samkeppni í Linux heiminum og hinn er eins konar brú fyrir forritara sem vilja forrita jafnt fyrir Linux og Windows. Þó ég sé hættur í bæði útgáfubransanum og forritunarheiminum, þá vil ég hafa tólin á verkfæraborðinu; því hver veit.
Ég mun líklega aldrei aftur eignast Landrover Series IIa, en ég geymi verkfæratöskuna með tommumáls lyklunum. Hver veit. Aldrei að segja aldrei, kannski er til eitt eintak í Austur Tyrklandi með nafninu mínu rituðu með ósýnilegu letri undir hvalbaknum ...
Ef þú ert kominn alla leið hingað í textanum, er þér alveg sama hversu langur hann er eða verður og ert löngu búinn að fatta hvert ég er að fara eða hvers vegna. Eins og Umberto Eco sagði í formálanum að Nafni rósarinnar, að skrifa vegna ánægjunnar einnar saman, en ég bæti við (því ég fattaði Eco smámsaman), en fela perluna.
Ef það er frítt, er það einskis virði.
Ef ferðin er fyrirhafnarlaus, ertu á villugötum.
Frítt, hefur ekkert með peninga að gera (útskýr. handa tískustundarbörnum).
Fyrir löngu síðan fékk ég starf hjá hugbúnaðarfyrirtæki vegna þess eins að ég nennti að nota ritþórinn Vi[m]. Ömurlegur hugbúnaður, og það er milda lýsingin. Það tekur margar vikur að læra að nota þetta forrit og aðeins þeir þrautseigustu leggja það á sig. Þegar þú hins vegar kannt nóg í því til að treysta þér til að nota það, þó ekki sé nema mellufær, þá ertu aldrei verkfæralaus í tölvu.
Vi er ávallt í boði í Linux (textaskel) og auðvelt að sækja fyrir Windows, einnig fyrir Mac. Ef þú kannt á tólið og þarft reglulega að meðhöndla hrátexta, ertu aldrei í vandræðum. En þetta er ömurlegt tól og ég hef aðeins hitt einn Íslenskan forritara sem kýs þetta tól sem aðal vinnuverkfæri. Hann vinnur svo til eingöngu í C forritun, eðlilega.
Dálítið merkilegt að hann er einnig guðleysingi, en það skiptir sosum engu máli. Ég hef aldrei skilið fólk sem einblínir á að 11 prósent "veruleikans" sé allur veruleikinn. Ég man eftir skemmtilegu mómenti þar sem hann og ég vorum úti í smók, hann tuðaði þá smókpásuna, og í öllum smókpásum þann daginn, yfir að framkvæmdastjórinn sem við unnum fyrir þekkti ekki grunn-muninn á heiltölum og rauntölum í forritun.
Ég skil sjálfur ekki þann mun, en ég hlustaði, og ég hugsaði um innihald tuðsins, og smámsaman áttaði mig á þessu. Hafði notað þennan mun í mörg ár, en aldrei séð ástæðu til að grafa niður á þessa dýpt. Hef aldrei þurft að meðhöndla þennan mun í forritun, hefði annars grafið dýpra en kauði.
Vimmarar eiga auðvelt með að skilja hvorn annan, upp að vissu marki. Hann fílar fallhlífastökk, ég ekki. Vafalaust vill hann prófa köfun. Ég ekki. Kannski prílar hann upp á fjöll. Ég skipa fjöllunum að koma til mín, hlýði þau ekki, ræði ég við tröllin.
Eitt af því sem hélt aftur af mér í nokkur ár, að henda Windows út af daglegu tölvunni minni og taka skrefið til fulls yfir í Linux heiminn, eru tvö forrit. Annað þeirra heitir Photoshop og hitt EditPlus. Ég hef ekki notað nýrri útgáfur af Photoshop en CS og lít ekki við nýrri útgáfum af EditPlus en útgáfa 3. Ástæðurnar eru e.t.v. orðnar augljósar.
Þegar hugbúnaður er byggður á skýrri högun sem aftur á rætur í einföldum og slípuðum ferlum (sem þurfa ekki að vera útgefnir ISO staðlar, eða reglur), þá þarf sá sem framleiðir hann að vita hvar mörkin eru. Dos 5 var fínn, Dos 6 overkill, Word XP var fínt, allar útgáfur síðan þá eru sefjun.
Lengi vel var eina leiðin til að vinna myndvinnslu í Linux, sú að nota GIMP. Síðar kom KDE vinnuhópurinn fram með Krita. GIMP er ónothæft, Krita sleppur. KDE hópurinn framleiðir allskyns hugbúnað, nær allt saman ónothæft því menn þar hafa engar rætur og miða sig við Windows (eins og margir Linux forritarar). KDE gefur t.d. út ritþórinn Kate sem sleppur ef þú hefur ekkert annað.
Það hefur aldrei verið skortur á ritþórum í Unix og Linux, þó voru Vi og Emacs lengi vel þeir bestu og því útbreiddastir. Nú er til aragrúi af ritþórum, vinsælastir held ég að séu Geany, Kate og Sublime. Það er auðvelt að leitarvéla "most popular text editors in Linux." Maður prófar þá alla, kemst að því að hver og einn hefur eitthvað til síns ágætis. Enginn þeirra stenst samanburð við EditPlus útgáfur 2 til 3.
EditPlus var byggður á opnum hugbúnaði sem hét Crimson Editor. Það er enn hægt að sækja þann síðarnefnda og hann er fínn. Hann væri hugsanlega útbreiddur í dag en þeir sem komu að síðustu útgáfum hans höguðu honum þannig að hann krefst óþarfa athygli þegar hann er ræstur. Síðar ætluðu einhverjir að smíða Emerald Editor upp úr kótanum sem Crimson er byggður á, en þeir komust aldrei á flug.
Ég hugleiddi um tíma að forrita sjálfur nýja útgáfu byggða á Crimson, og þá annaðhvort í Java eða Open Pascal. Það væri áhugavert verkefni og er frekar auðvelt því kótinn í Crimson er opinn og auðvelt að upprita Cplúsplús kótann í Crimson í Java eða Pascal og síðan að umbreyta honum og haga þannig að einhverjir áhugasamir gætu sameinast um áframhaldandi þróun á Github.
Ég hef eytt heilu dögunum, síðan ég fór alla leið yfir í Linux, fyrir um það bil ári síðan, í að finna mér góðan ritþór. Á forritunar árunum mínum notaði ég helst aldrei forritunarumhverfi (RAD - IDE), og einblíndi á einfaldleikann undir húddinu, þó ekki eins djúpt og Vimmarinn sem áður var minnst á. Eftir að hafa niðurhalað, sett upp og prófað um það bil fimmtán mismunandi ritþóra, var lendingin sú að nota þrjá eftir ativkum, gedit, xed og Vi.
Þessi texti er settur saman í xed - sem búið er að stilla á dökk-bláskjá, en ég nota oftar gedit fyrir glósur. Þegar ég vil sjá bitana og bætin í einhverju fer ég í Vi, þegar ég stilli hýsingarkerfið á lénunum mínum, neyðist ég til að not Vi í tengdri textaskel (networked command console). Þetta er ástæðan fyrir að ég væri til í að smíða einhvers konar ritþór byggðan á forvinnunni í Crimson (sem er ekki lengur viðhaldið).
Er þetta flókið?
Kannski, en þú manst; flæðið ræður ferðinni.
Að feitletra, miðju- og skáletra, hliðjafna eða fulljafna, eða setja inn myndir, jafnóðum og þú setur saman texta, er flækjufótargrautur. Fyrir fimmtán árum buðu allar ritvinnslur og umbrotsforrit upp á að vinna þannig, sum ennþá.
Stóra vandamálið mitt við Linux eru hornklofar. Svo fáránlegt sem það er. Til að slá inn hornklofa [ ], styður þú á Ctrl+Alt vinstra megin meðan þú slærð á átta eða níu hægra megin, þ.e. ef þú notar Windows. Sértu í Linux neyðist þú til að styðja á AltGr hægra megin meðan þú slærð inn átta eða níu eftir atvikum. Mér finnst þetta pirrandi og finn ekki hvernig ég get breytt þessu fyrir Íslenska lyklaborðið. Væri ég að nota enskt lyklaborð, væri þetta ekkert mál.
Þetta útskýrir hvers vegna maður er smámunasamur varðandi ritþóra. Þegar þú hefur tamið þér að nota eins mikinn einfaldleika og hægt er, verða smáörðurnar stórar. Rétt eins og með steinvöluna undir dýnum prinsessunnar. Samtímis þessu verður þér sífellt meira áberandi eða sýnilegt þegar aðrir klárir einfeldningstrítlar flækjast í áhrifum tískustundarinnar.
Einstæn sem frímúrar notuðu til að rita ljósvakann (Ether) út úr húmanistavísindum, á margar góðar setningar sem hjúpa dýpt. Eins og allir vita, lærði hann dýptarhugsun af sinni fyrrverandi, Mílevu Maric þegar hún kenndi honum að uppreikna Afstæðiskenninguna. "Ef þú getur ekki útskýrt það með einfaldleika, skilur þú það ekki nægilega vel" og "einfaldleikinn er æðsta fágun."
("If you cannot explain it simply, you do not understand it well enough." og "Simplicity is ultimate sophistication").
Sem minnir á tvær snilldarsetningar, önnur þeirra tilheyrir Ernst Hemingway og hin eignuð honum: "Að skrifa var auðvelt. Ég settist við ritvél og blæddi" og "Barnaskór til sölu, ónotaðir."
("Writing was easy, I sat at a typewriter, and bled" og "Babyshoes for sale, unused.")
Fyrir fáeinum mánuðum var ég rápa um rásina hans Brian Ruhe á Bitchute. Hann hefur gaman af ýmsu s.s. geimverur, nasismi, búddismi, menning og allskyns. Maður þarf ekki að vera sammála honum um neitt en en hann hefur verið lengi að, oft verið beittur samfélagslegu einelti vegna skoðana sinna og tekist á við það allt af æðruleysi. Vegna nasismans hjá honum verður maður að taka fram að maður sé ekki nasisti ef maður hefur gaman af Brian.
Nasistar eru sósíalistar, nær allir í okkar samtíma eru sósíalistar og það á að vera óþarfi að benda á hvernig tískustundarfólk er nú almennt sekt um hlutdeild í margföldum glæpum, sé borið saman við bæði ætlaða og dæmda nasistaglæpi.
Það er enginn hugur lengur.
Var búinn að segja það eikkurstaðar.
Allavega.
Sá í fyrra myndskeið þar sem Brian var að ræða við fleiri geimveruáhugamenn. Ég er ekki geimveruáhugamaður en álpaðist samt til að horfa og hlusta. Einn viðmælandanna, Charles Upton, vakti fljótt áhuga minn, en myndskeiðið var í raun viðtal við hann (og næstu þrjú í röðinni), með þátttöku hlustenda.
Upton er fjölæringur. Það var í þessu viðtali sem ég heyrði enska orðið "Perennialist" í fyrsta sinn, svo ég tæki eftir, svo ég sótti stóru ensk-ísl og fletti því upp. Ég hef síðan þetta var hlustað á fleiri samtöl við Charles Upton sem aðrir hafa tekið upp, og niðurhalað sumum þeirra til geymslu. (https://duckduckgo.com/?q=interview+charles+upton&t=ffab&ia=web)
Hann aðhyllist súfískt Íslam, m.a., og þegar hann er spurður út í þá trú sína, segir hann "ég veit ekkert hvort það sé til hin eina rétta trú, eða hvort Íslam sé Sannleikurinn, en ég held að Guð hafi viljað að ég færi þessa leið."
Íranskt-bandaríski Menningarfræðingurinn Reza Aslan hefur getið sér gott orð fyrir umræður um menningar- og trúmál. Hann var alinn upp sem íslamskur-húmanisti, varð síðan (hvítasunnu) kristinn og síðar aftur múslími. Hann segir stundum að þegar þú grefur djúpt skipti e.t.v. ekki máli hverrar tegundar skóflan er, þú getir grafið margar eins metra djúpar holur eða einn djúpan brunn og Íslam henti sér vel til að grafa djúpt.
Fyrir nokkrum árum heyrði ég á tal manna sem ræddu í heitu pottunum hversu hræðilegan samtíma við værum að lifa. Því hryllingurinn fæddist ekki skyndilega þann 11. mars 2020. Við vorum margir búnir að sjá birtingu hans við sjónarröndina og leggjast á umræðuárarnar til að vara við, eða sá fræjum framtíðarinnar.
Það er einmitt mergurinn málsins.
Ásatrúin á ekki einkarétt á spíralnum, því spírallinn leynist einnig í ritningum Eingyðistrúarinnar. Ef þetta væri augljóst, þyrfti engar raunir, enga djúpa dali. Menningin okkar dó af ástæðu, sem er þekkt og þaulútskýrð. Einhverra hluta vegna þarf að slípa það aftur og aftur.
Ég veit ekki hvers vegna.
Ég fagna þegar ég næ að skilgreina að ég veit ekki eitthvað.
Þess vegna féll ég fyrir hugtakinu Fjölærið, því hægri og vinstri, upp og niður, afturábak og áfram, ásamt frekari flokkaskiptingum er allt úrelt. Það mun allt koma aftur, en núna er tískustundin að brenna akurinn og við hin að hlúa að fræjunum.
Þú manst að Jósúa Maríuson lýsti fernum tegundum sáninga. Hér er sú fimmta á ferðinni.
Það eru engin endalok og ef þú rýnir í ljósenglana sjö sem villt hafa um fyrir mannfólki og umbreytt því yfir í MannKyn síðustu 5783 ár, sérðu að skurðgoðið og endalokatrúin (Eschaton, Eschatology) sameinar þá alla. Jósúa Maríuson ráðleggur þér að biðja í leynum þar sem faðirinn sem sér (eða dylst) í leynum heyrir til þín. Hver veit nema Jósúa hafi fattað eitthvað sem er hvergi markaðssett myndastyttum Medúsu.
Vissir þú að allt sem hann kenndi er til í Mídrasinu og Talmúdinum, jafnvel faðirvorið er þar einnig. Fjölærið, þú skilur, blómin sem spretta í hverju spori þínu úti á eyðimörkinni, geislavirknin sem drepur þig ef þú snertir fjallið helga án þess að hafa helgast. Hvað er helgt fjall? Það tók mig mörg ár að fatta það.
Nei, það ritum við ekki niður. Hlustaðu frekar á goluna í grasinu.
Lífið er skapað af ástæðu, ljósið framkallar bæði dimmu og birtu. Þú getur ekki skilgreint stikana sem afmarka alheiminn, þú getur ekki sannað neitt af því sem virðist vera ofan við hundrað kílómetra hæðarlínuna. Þú veist ekki hvað þú ert, tæplega hver þú ert.
Eins og Douglas Adams sagði svo snilldarlega í Vetrarbrautarvegahandbók puttaferðalangsins:"Ég tæki ekki alvarlega þann sem teldi sig vita hvað veruleikinn er, ef slíkt er til."
Öll þessi færsla, rúmast í fyrirsögn hennar. Það sem segja þarf, getur enginn sett í orð. Hvað hefur vindurinn brotið mörg tré í baráttu sinni við grasið eða hið síðarnefnda samið mörg dansspor í sömu átökum?
Við erum að klára fyrstu viku sköpunarinnar. Áttundi dagurinn er skammt undan. Það eru margar vikur í árinu, margar aldir í ælífð.
Lokahugleiðing:
Rauntölur eru ekki til, aðeins heiltölur. Þó eru þær stærðfræðileg nauðsyn. Grunn-munurinn skiptir máli í sumri forritun en alls ekki allri.
Rakst nýlega á kafla í einni af bókum stærðfræðingsins David Berlinski þar sem hann viðurkenndi að hafa hugleitt þetta, en frekar en að viðurkenna viskuna benti á genginn þýskan heimspeking sem gerði út á þessa visku. Ég vissi ekki að þetta hafði verið hugleitt í heimspekinni fyrr en ég hafði hugsað þetta sjálfur og fundið rökin.
Held að Fibonacci hafi fattað þetta. Veit fyrir víst að Blaise Pascal gerði það, þó hann hafi hvergi skrifað það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.